Hættir að eigin frumkvæði

Aðalsteinn Leifsson hefur látið af störfum ríkissáttasemjara.
Aðalsteinn Leifsson hefur látið af störfum ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Leifsson segist sjálfur hafa átt frumkvæði að því að láta af störfum sem ríkissáttasemjari og þvertekur fyrir að ákvörðunin sé tilkomin vegna einstakrar kjaradeilu. Hann mun láta af störfum sem ríkissáttasemjari frá og með morgundeginum 1. júní.

„Undanfarin ár hafa verið mjög krefjandi en að sama skapi árangursrík þar sem við höfum alltaf náð að finna sameiginlega lausn á þungum og erfiðum kjaradeilum. En eftir að hafa verið vakinn og sofinn yfir þessu verkefni í nokkur ár finnst mér komið gott,“ segir Aðalsteinn. 

Hann segist kveðja embætti ríkissáttasemjara ánægður með þann árangur sem náðst hefur og er þakklátur því fólki sem hann hefur kynnst í gegnum starfið og fyrir það að hafa fengið að sinna þessu mikilvæga verkefni. 

Mikið gustað í kringum Eflingarmálið

Í upphafi árs lýsti stjórn Eflingar yfir vantrausti á ríkissáttasemjara í kjölfar kjaradeilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Yfirlýsing Eflingar átti sér stað í kjölfar miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem gagnrýnd var af bæði Eflingu og SA. 

Spurður hvort einstök mál hafi haft áhrif á ákvörðun Aðalsteins um að stíga hliðar segir hann að sú sé alls ekki raunin.

„Það hefur náttúrulega ekki farið framhjá neinum að það er mikil togstreita á vinnumarkaði og það hafa komið upp margar þungar og erfiðar kjaradeilur eins og kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, en það hefur samt alltaf tekist að ná lendingu þó að leiðin hafi verið snúin og stundum þyrnum stráð. Ástæða þess að ég hætti nú er ekki einhver einstök kjaradeila,“ segir Aðalsteinn sem þvertekur fyrir að atburðarrásin í kringum kjaradeilur Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins hafi sett mark sitt á afsögn sína.

„Ég hef verið í þessu starfi oft á tíðum allan sólarhringinn svo vikum skiptir undanfarin ár og núna langar mig til þess að snúa mér að öðrum verkefnum, það er bara þannig,“ bætir Aðalsteinn við. 

Hvað nú?

Aðalsteinn er ekki tilbúinn til að gefa upp hvað taki við hjá sér næst, en hann hyggst vera til staðar fyrir þann sem tekur við embætti ríkissáttasemjara svo hægt sé að tryggja framgöngu allra mála. Mörg mál séu á borði ríkissáttasemjara í augnablikinu og verði því að sjá til þess að öllum boltum sé haldið á lofti á meðan embætti ríkissáttasemjara færist í aðrar hendur.

Fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðssins að ákveðið hafi verið að Ástráður Haraldsson, héraðsdómari, taki við embætti ríkissáttasemjara frá og með 1.júní þar til skipað verði í embættið að nýju.   

mbl.is