Frekari þétting „síst of mikil“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í þróunarkeppni fyrir Keldnaland er gert fyrir að lágmarki 10 þúsund manna byggð á svæðinu og að 5 þúsund manns starfi þar. Í seinni umferð keppninnar var ákveðið að sjá hvernig hönnunarstofur myndu skipuleggja svæðið miðað við að lágmarki 15 þúsund íbúa. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þessi hugmynd um frekari þéttingu svæðisins sé „síst of mikil“.

mbl.is fjallaði um þróunarkeppnina í síðustu viku og ræddi við Brent Toder­i­an, fyrr­ver­andi skipu­lags­stjóra kanadísku borg­ar­inn­ar Vancou­ver og einn þeirra sem sitja í dóm­nefnd um þróun Keldna­lands.

Brent er mikill talsmaður frekari þéttingar og hélt erindi á málþingi um samgöngur, sjálfbært borgarskipulag og reynslu annarra borga í síðustu viku. Talaði hann í bæði viðtalinu og erindi sínu um mikilvægi þess að hafa þéttni í byggð nægjanlega mikla til að nærþjónusta myndi standa undir sér.

„Við eigum að stefna að auknum þéttleika

Keldnalandið er um 116 hektarar og miðað við tíu þúsund íbúa yrði þéttni þar um 70% meiri en í Grafarholtinu. Brent sagði við mbl.is að hér þyrfti að horfa sérstaklega til orðanna „að lágmarki“ og vildi sjá umtalsverða þéttingu umfram lágmarkið.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að þéttni í Grafarholti væri sambærileg við þéttni í Keldnalandi með 10 þúsund íbúa. Hið rétta er að þéttni Keldnalands yrði um 70% meiri en Grafarholts, eða 86 íbúar á hektara samanborið við um 50 íbúa á hektara í Grafarholti.

Stærð Keldnalandsins er um 116 hektarar.
Stærð Keldnalandsins er um 116 hektarar. Kort/Betri samgöngur

Dagur tekur undir þetta í samtali við mbl.is. „Já, ég tek undir að við eigum að stefna að auknum þéttleika og þess vegna létum við keppendur spreyta sig á því hvernig væri að útfæra ef íbúar væru 50% fleiri [í Keldnalandi],“ segir hann og bætir við: „Mér finnst þessi 50% aukning síst of mikil.“ Ef miðað væri við það myndu íbúar nýja hverfisins verða um 15 þúsund.

Spurður hvort hann teldi þá rétt að horfa til þess að allt að 20 þúsund íbúar gætu verið í hverfinu segir Dagur ekki rétt að úttala sig um það. Dómnefndin sé enn að störfum og að þegar niðurstöður liggi fyrir þurfi að skoða hvaða útfærsla sé í boði og hvernig það passi við þéttleika.

„Ég sé enga ástæðu til að draga úr þéttaleika ef hverfið stendur undir því, ef það er nægilega mikið af grænum og skemmtilegum svæðum og við getum tryggt lífsgæði.“

Svæðið nær frá Grafarvogi og meðfram Vesturlandsvegi.
Svæðið nær frá Grafarvogi og meðfram Vesturlandsvegi. Kort/Betri samgöngur

Mikilvægt fyrir nærþjónustu

Segir hann þéttingu byggðar sérstaklega mikilvæga fyrir nærþjónustuna og þá skipti líka miklu máli hvernig þróunin hafi verið hér á landi þar sem færri og færri búa nú í hverju húsi eða hverri íbúð.

„Áður bjuggu jafnvel 2-3 fjölskyldur í húsi þar sem ein fjölskylda býr núna,“ segir Dagur.

Nefnir hann Breiðholtið sem dæmi um eitt fjölmennasta hverfi borgarinnar, en að þar hafi íbúum fækkað um þúsundir undanfarin ár og áratugi þótt ekkert húsnæði hafi verið rifið. Hafi borgin því unnið að þéttingaráformum í hverfinu með nýju rammaskipulagi.

Stóra markmiðið að sögn Dags er þó að þétta byggð út frá helstu samgönguæðum þar sem áformað er að borgarlínan muni fara í gegnum. „Þar eru stóru tækifærin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert