Andlát: Myriam Bat-Yosef

Myriam Bat-Yosef.
Myriam Bat-Yosef. Ljósmynd/Aðsend

Myriam Bat-Yosef myndlistarkona lést í París 8. október síðastliðinn, 92 ára að aldri. Hún var fyrrverandi eiginkona listmálarans Errós.

Myriam fæddist í Berlín 31. janúar 1931, dóttir litháískra foreldra af gyðingaættum. Á flótta undan stríðsátökum lá leið fjölskyldu hennar til Frakklands og Palestínu, en hún lærði myndlist í Tel-Aviv og síðar í París og Flórens.

Á Ítalíu kynntist hún listmálaranum Guðmundi Guðmundssyni, Erró. Þau gengu í hjónaband árið 1956, en hjónabandinu lauk á miðjum sjöunda áratugnum eftir ríflega áratugar sambúð í París og á Íslandi. Þau eignuðust eina dóttur, Turu, fædda 1960.

Myriam hlaut íslenskan ríkisborgararétt og sýndi hér á landi við ýmis tilefni. Vorið 1965 hélt hún sína fyrstu sýningu á Íslandi í Sýningarsalnum á horninu á Ingólfsstræti og Hverfisgötu, sem var eitt fyrsta galleríið í Reykjavík. Síðast sýndi Myriam hér á landi á sýningunni Teikn í Nýlistasafninu árið 2012. Verk listakonunnar eru í eigu einstaklinga og safna hér á landi, þar á meðal Nýlistasafnsins og Listasafns Reykjavíkur.

Myriam Bat-Yosef sýndi víða um heim við góðan orðstír en verk hennar tóku breytingum undir lok sjöunda áratugarins í þá átt sem hún er hvað kunnust fyrir. Málverk, teikningar, ámálaðir skúlptúrar og gjörningar í súrrealískum anda tóku við af hefðbundnari og akademískari úrvinnslu í abstrakt-expressífum stíl. Verk Myriam voru upplýst af inntaki femínískrar hugmyndafræði sem gerjaðist upp úr miðri síðustu öld. Með ritúalískri notkun líkamans í verkum sínum eru verk hennar á stalli með verkum fjölmargra listakvenna sem ruddu braut femínínskrar hugsunar í myndlist.

Útför Myriam fer fram samkvæmt ósk listamannsins um hinsta listræna gjörninginn. „Mon testament“, sem á sér stað mánudaginn 16. október kl. 11.30 í Mauméjean-sal bálstofu kirkjugarðsins Père-Lachaise í París. Þar er haldin athöfn sem Myriam sjálf lagði drög að og fékk staðfesta af löggiltum aðilum á sínum tíma. Aðstandendur heiðra minningu hennar með því að framfylgja hugmyndunum til hins ýtrasta. Viðstaddir eru beðnir að klæðast litríkum klæðnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert