Geta tryggt neysluvatn og rafmagn með skerðingum

Ef til þess kemur að starfsemin hjá virkjuninni við Svartsengi …
Ef til þess kemur að starfsemin hjá virkjuninni við Svartsengi hættir vegna goss mun nauðsyn Reykjanesvirkjunar aukast til muna. Samsett mynd

Ef sú sviðsmynd myndi rætast að starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi félli út vegna goss á Reykjanesskaga yrði erfitt að tryggja heitt vatn í Reykjanesbæ. Þó væri hægt að tryggja rafmagn og neysluvatn að einhverju leyti. 

Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.

Reykja­nes­bær reiðir sig á heitt vatn frá virkjuninni í Svartsengi og að hluta til raf­magn. Kjartan hefur verið í samskiptum við viðeigandi aðila um þær aðgerðir sem myndi þurfa að grípa til ef neikvæðar sviðsmyndir raungerast.

„Mér er sagt að það væri hægt að bjarga neysluvatni, köldu vatni, í einhverjum mæli, þó ekki í sama magni og það er í dag. Það þyrfti væntanlega að skerða það eitthvað,“ segir Kjartan.

Heita vatnið raunverulegt áhyggjuefni

Varðandi rafmagn segir Kjartan að það ætti að einhverju leyti að vera í boði frá Reykjanesvirkjun, annað orkuver HS orku á Reykjanesi. Það rafmagn kemur í gegnum Landsnet og spennistöð á Fitjum í Njarðvík.

„Það ætti að vera hægt að tengja það inn en það er alveg viðbúið að það verði skerðingar. Þannig að kalt vatn og rafmagn ætti að vera í boði, líklega í minni mæli en á venjulegum degi.“

Hið raunverulega vandamál er hins vegar heita vatnið. Það kemur frá Svartsengi.

„Ef að það dettur út þá verður kalt í húsum á vetrarmánuðum og mun hafa mikil áhrif á okkur,“ segir Kjartan.

Reykjanesvirkjun.
Reykjanesvirkjun. mbl.is/Helgi Bjarnason

Býr sig undir það versta en vonar það besta

Neysluvatn kemur frá vatnsbólum, eins og dælustöðinni í Lágum sem er á miðjum Reykjanesskaga. Svo eru vatnsból víðar eins og í Garði í Suðurnesjabæ. Kjartan segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann sé búinn að fá þá verði hægt að sækja vatn þangað.

Hann kveðst deila áhyggjum fólks en segir aðalatriðið vera að fólk fylgist vel með og undirbúi sig. Þegar kemur að jarðhræringum sem þessum þá sé margt ófyrirsjáanlegt og nauðsynlegt fyrir fólk að treysta á sérfræðinga.

„Maður býr sig undir það versta en vonar það besta,“ segir bæjarstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert