Lilja ósátt við viðbrögð fjármálastofnana

Bankar og lánastofnanir hafa boðið Grindvíkingum upp á frystingu lána …
Bankar og lánastofnanir hafa boðið Grindvíkingum upp á frystingu lána án þess að fella niður vexti og verðbætur sem bætast ofan á höfuðstól lánanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, segir algjört lykilatriði að fjármálastofnanir skilji ábyrgð sína gagnvart íbúum Grindavíkur.

Bankar og lánastofnanir hafa boðið Grindvíkingum upp á frystingu lána án þess að fella niður vexti og verðbætur sem bætast ofan á höfuðstól lánanna.

Ertu ekki sátt við fyrstu viðbrögð banka og lánastofnanna?

„Nei því fer fjarri og ég mun taka á þessu,“ sagði Lilja við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag en margir, þar á meðal þingmenn og verkalýðsleiðtogar, hafa gagnrýnt harkalega viðbrögð lánastofnanna.

„Þetta eru mjög yfirþyrmandi atburðir og óvissutími sem fólkið í Grindavík er að ganga í gegnum. Fjármálastofnanir verða að sýna samfélagslega ábyrgð á svona miklum óvissutímum og ég skora á þær að gera betur.

Lilja Dögg er ekki sátt við fyrstu viðbrögð banka og …
Lilja Dögg er ekki sátt við fyrstu viðbrögð banka og lánastofnanna gagnvart íbúum Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég er búin að kynna mér þetta mjög vel og stöðu íbúanna. Það eru gríðarleg fjárútlát sem fólk í Grindavík þarf að leggjast í. Margir eru að fara í leiguhúsnæði sem kostar mikið og önnur fjárútlát eins og að tryggja að börnin þeirra hafi föt og geti stundað tómstundir og skóla,“ segir Lilja Dögg.

Lykilatriði að fjármálastofnanir skilji ábyrgð sína

Hún segir algjört lykilatriði að fjármálastofnanir skilji ábyrgð sína en séu ekki að senda skilaboð sem auki á áhyggjur fólks í Grindavík sem hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Hún segir að það sé mjög átakanlegt að fylgjast með og horfa uppá stöðu þessara fjölskyldna. Lilja segir að öllum beri siðferðisleg skylda að ná utan um þetta fólk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert