Mikilvægt að upplýsingar séu réttar

Frá aðgerðastjórn almannavarna í Reykjanesbæ.
Frá aðgerðastjórn almannavarna í Reykjanesbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, segir mjög mikilvægt að upplýsingar um hvað sé að gerast á Reykjanesskaga séu réttar og ekki misvísandi en umfjöllum á erlendum miðlum um atburðina í og við Grindavík hefur hrætt ferðamenn sem hyggjast sækja Ísland heim.

Lilja ræddi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag en málefni Grindvíkinga og hugsanlegs eldgoss var helsta umræðuefnið.

„Það sem við erum að ræða á fundum ríkisstjórnarinnar mest þessa dagana eru allar þessar umfangsmiklu aðgerðir sem nú er verið að skipuleggja í samvinnu við Grindavíkurbæ. Þetta tengist auðvitað afkomu fólks sem verður tryggð, húsnæðismálum, tímabundnu húsnæði, skólamálum, ferðaþjónustunni og fleiru. Atburðurinn er enn í yfirvofandi og þess vegna þurfum við að vera vel undirbúin undir allt en líka að huga að því ef það verður ekki gos,“ segir Lilja við mbl.is.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, ræddi við mbl.is eftir …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, ræddi við mbl.is eftir fund ríkistjórnarinnar. mbl.is/Eyþór Árnason

Umfangsmikil áætlun sett af stað

Borið hefur því að ferðamenn séu að íhuga afbókanir vegna hræðslu við hugsanlegt eldgos og margir séu tvístígandi að bóka ferðir til Íslands. Sem ráðherra ferðamála var Lilja spurð hvort hún hafi eitthvað hugað að þessum málum?

„Ég setti af stað í samvinnu við Íslandsstofu og ferðamálastofu mjög umfangsmikla áætlun um það hvernig við mundum bregðast við á erlenda vísu. Það er mjög mikilvægt að allar þær upplýsingar sem berast frá því sem er að gerast hér séu réttar og ekki misvísandi. Við settum þetta af stað fyrir rúmum tveimur vikum síðan og við fáum daglega upplýsingagjöf hvað þetta er mikið í fréttum,“ segir Lilja Dögg.

Hún segir að jarðhræringarnar og hugsanlegt eldgos í við Grindavík hafi verið mikið í fréttum erlendis.

„Sumir hafa miklar áhyggjur en við höfum ekki séð mikið af afbókunum. Okkur hafa hins vegar borist margar spurningar sem Íslandsstofa, ferðamálastofa og almannavarnir eru að svara þessa dagana,“ segir Lilja.

Öryggi mikilvægt þeirra sem eru á svæðinu

Fjölmiðlar heyra undir ráðuneyti Lilju Daggar en borið hefur á óánægju þeirra með heftan aðgang í Grindavík. Spurð hvort það sé eðlileg að björgunarsveitarfólk þurfti alltaf að fylgja fjölmiðlafólki í stað þess að treysta því segir hún:

„Það sem er auðvitað mjög mikilvægt er öryggi allra sem eru á svæðinu og það sem ég ímynda mér að björgunarsveitarfólk er að gera lítur að því. Um leið og verður búið að tryggja öryggi þá er auðvitað mjög mikilvægt að aðgengi þeirra sem vilja miðla upplýsingum frá þessum atburði verði til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert