Leikari skrifar spennutrylli

Leikarinn Richard Armitage var staddur á Íslandi nýlega og ræddi …
Leikarinn Richard Armitage var staddur á Íslandi nýlega og ræddi um feril sinn og nýja spennubók. mbl.is/Ásdís

Stórleikarinn, og nú rithöfundurinn, Richard Armitage tekur á móti blaðamanni með breiðu brosi og stóru faðmlagi. Armitage er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Thorin Oakenshield í þríleiknum Hobbitanum, sem byggður er á bókum J.R.R. Tolkien. Margir kannast líka við hann úr bresku njósna­þáttunum Spooks, kvikmyndinni Ocean’s Eight eða nýlega ástarskandalsþættinum Obsession. En nú hefur leikarinn reynt fyrir sér á bókmenntasviðinu því út er kominn spennutryllirinn Geneva. Einmitt þess vegna var breska leikaranum boðið til Íslands á bókmenntahátíðina Iceland Noir sem fór fram á dögunum.

Geneva fjallar um nóbelsverðlaunahafa í vísindum, Söruh Collier, sem fær alzheimerssjúkdómsgreiningu á ráðstefnu í Genf þar sem hún er stödd að halda erindi. Þar með er ekki öll sagan sögð því af stað fer atburðarás sem heldur lesandanum í spennu þar til yfir lýkur.

Góður leikari þarf hugmyndaflug

Armitage er á Íslandi í fyrsta sinn og er yfir sig hrifinn.

„Ég hef bara verið hér í nokkra daga og langar mikið að koma aftur að sumarlagi. Við fórum á Gullfoss og veðrið hefur verið svo fallegt; appelsínugulur himinn og ekkert sem truflar útsýnið. Við reyndum að leita að norðurljósunum en sáum þau ekki, en bara að komast út úr borginni og vera í algjöru myrkri var mjög sérstakt,“ segir Armitage sem hefur áratugareynslu af leik og segir það klárlega hafa hjálpað sér við skriftirnar á Geneva.

„Á lífsleiðinni hafa orðið á vegi mínum mörg snilldarhandrit og ég hef hitt marga snjalla höfunda sviðsverka. Maður pikkar upp eitt og annað sem hægt er að nota í skriftir. Ég hef lært bæði af því góða og slæma,“ segir Armitage og nefnir að sér þyki mest spennandi að skrifa samræðurnar og að setja sig inn í senurnar.

Þegar þú skapar og þróar persónur, notar þú sjálfan þig eða fólk úr eigin lífi sem fyrirmyndir?

„Þegar ég er að leika sjálfur þá reyni ég að halda minni persónu langt frá þeim sem ég leik. Þar eru kannski 2% af sjálfum mér og 98% af hinum skapaða karakter. Í bókinni er kannski aðeins meira frá sjálfum mér. En aðalleikkonan, Sarah Collier, er byggð á Söruh Gilbert sem hannaði AstraZeneca-bóluefnið. Á tímum kórónuveirunnar horfði ég á mikið af heimildarmyndefni um hana og fannst hún vera trúverðug manneskja sem hægt væri að taka mark á; mitt í allri upplýsingaóreiðunni sem þá ríkti. Ég notaði því hana sem fyrirmynd að aðalpersónunni,“ segir hann.

„Það stendur til að búa til sex þátta seríu eftir bókinni. Ég verð að leika í henni; það var hluti af samningi mínum hjá Sony. Ég mun leika eitt aðalhlutverkið.“

Að leika í Hobittanum væri nóg

Ef þú horfir til baka yfir ferilinn, hvaða hlutverk stendur upp úr?

„Þau eru tvö; eitt var í Hobbitanum þar sem ég lék Thorin Oakenshield. Það var eitt stórt ævintýri að fara hinum megin hnattarins og dvelja þar um langa hríð. Þar fékk ég að leika hlutverk persónu úr bók sem hafði verið stór hluti af næringu ímyndunarafls míns þegar ég var tíu ára gamall. Að fá svo að fara sem fertugur maður og leika þetta hlutverk var eins og að loka hringnum. Myndirnar fengu svo frábærar viðtökur og öll sú reynsla var dýrmæt. Ef ég myndi aldrei leika annað hlutverk á ævinni, yrði þetta nóg.“ 

Armitage var hrifinn af Íslandi og ætlar nú að lesa …
Armitage var hrifinn af Íslandi og ætlar nú að lesa bókina Reykjavík. mbl.is/Ásdís

Armitage hefur ferðast vítt og breitt um heiminn vegna vinnu sinnar sem kvikmyndaleikari.

„Það er ein besta gjöfin sem ég fæ sem leikari, að fá að vinna erlendis. Ég er ekkert góður í því að vera túristi en mér finnst svo skemmtilegt að fá að vinna erlendis því þá fæ ég að kynnast heimafólki og maður kemst að því hvernig staðurinn er í raun,“ segir hann og segist strax finna sig vel á Íslandi þó hann sé í sinni fyrstu heimsókn. Hann segist nú hlakka til að lesa Reykjavík eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur, ekki síst vegna þess að nú hefur hann verið hér.

„Mér líður eins og ég sé í bíómynd hér; kannski sé þetta í einhverjum rósrauðum bjarma,“ segir hann og brosir.

„Svo er hér svo mikil náttúra með öllum þessum jarðhræringum. Það er frekar fyndið hvernig umheimurinn flytur fréttir af því að Ísland sé að springa í loft upp og svo kemur maður hingað og heimamenn eru rólegir, enda er þetta hluti af ykkar lífsstíl.“

Ítarlegt viðtal er við Armitage í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert