Telja rannsóknarmann vanhæfan

Sigurður Gísli Björnsson og tveir aðrir karlmenn eru ákærðir fyrir …
Sigurður Gísli Björnsson og tveir aðrir karlmenn eru ákærðir fyrir stórfellt skattalagabrot sem tengist rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurða ehf. á árunum 2010 til 2017. mbl.is/Hákon

Frávísunarkrafa, sem lögmaður Sigurðar Gísla Björnssonar lagði fram í Héraðsdómi Reykjaness þegar svonefnt Sæmarksmál var tekið fyrir í síðustu viku, byggist á því að rannsóknarmaður hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið vanhæfur að lögum til að rannsaka málið. Málflutningur verður um frávísunarkröfuna í febrúar.

Í málinu eru Sigurður Gísli og tveir aðrir karlmenn ákærðir fyrir stórfellt skattalagabrot sem tengist rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurða ehf. á árunum 2010 til 2017.

Í bókun sem lögð var fram í héraðsdómi af hálfu Sigurðar Gísla og félagsins H-68 ehf., sem áður hét Sæmark-Sjávarafurðir ehf., segir að fyrir liggi að Páll Jónsson lögfræðingur hafi sinnt starfi rannsóknarmanns við rannsókn skattrannsóknarstjóra á málum Sæmarks-Sjávarafurða og Sigurðar Gísla. Rannsókninni lauk í nóvember 2020 og var málinu þá vísað til héraðssaksóknara. Í bréfi komi fram það álit embættisins, sem byggi m.a. á rannsókn Páls Jónssonar, að Sigurður Gísli og Sæmark-Sjávarafurðir ehf. hafi gerst sek um refsilagabrot.

Sinnti lögfræðilegum verkefnum fyrir Sigurð

Í bókuninni segir að Páll Jónsson hafi starfað sem löglærður fulltrúi eiganda lögfræðistofunnar Nordik Legal á árinu 2011 til 2013. Einn eigenda lögmannsstofunnar sé Andri Gunnarsson lögmaður, en Andri hafði stöðu grunaðs manns við rannsókn skattrannsóknarstjóra á málefnum Sæmarks-Sjávarafurða og Sigurðar Gísla. Hann var ekki ákærður.

Þá segir að í störfum sínum sem fulltrúi Andra hafi Páll sinnt ýmsum lögfræðilegum verkefnum fyrir Sigurð Gísla og Sæmark-Sjávarafurðir og m.a. séð um alla skjalagerð vegna stofnunar samlagsfélagsins Flutnings og Miðlunar, sem stofnað var 2011. Er síðan vísað í skýrslu skattrannsóknarstjóra þar sem segi að atvik bendi eindregið til þess að stofnun þess félags hafi verið til málamynda í skattalegu tilliti. Ekki var ákært vegna starfsemi þess félags.

Í bókuninni er fullyrt að Páli hafi verið sagt upp störfum hjá Nordik Legal í ágúst 2013 vegna ítrekaðra brota á skyldum hans gagnvart vinnuveitendum sínum og viðskiptavinum lögmannsstofunnar, þar á meðal gagnvart ákærðu. Fyrir hendi séu sannarlega atvik eða aðstæður sem kunni að vekja vafa um óhlutdrægni Páls við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra og segjast ákærðu telja að Páll hafi verið mjög ósáttur við Andra Gunnarsson og viðskiptavini hans. Hann hafi því verið vanhæfur að lögum til að rannsaka mál ákærðu hjá skattrannsóknarstjóra og augljóst sé að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni hans við rannsókn málsins.

Rannsókn á eigin gjörðum

„Páll Jónsson komst m.a. að þeirri niðurstöðu um Flutning og Miðlun slf., sem hann sjálfur stofnaði og veitti ráðgjöf um rekstur, að félagið hefði verið stofnað til málamynda og í því skyni að komast undan greiðslu skatta. Páll Jónsson lögmannsfulltrúi vissi allt um stofnun félagsins á sínum tíma og veitti ráðgjöf um stofnun þess og fyrirhugaðan rekstur. Páll Jónsson vissi því hver væri fyrirhugaður rekstur félagsins og í hvaða skyni félagið var stofnað. Rannsókn Páls Jónssonar rannsóknarmanns á málefnum Flutnings og Miðlunar slf. var í raun rannsókn Páls Jónssonar á eigin gjörðum sem lögmannsfulltrúi og lögfræðilegur ráðgjafi Sæmarks-Sjávarafurða ehf. og Sigurðar Gísla. Páll Jónsson rannsóknarmaður var að sjálfsögðu vanhæfur til að rannsaka eigin gjörðir og lögfræðiráðgjöf. Í raun laut rannsókn Páls Jónssonar að lögmæti hans eigin gjörða,“ segir m.a. í bókuninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert