Snorrastofa fengi húsnæði Héraðsskólans í Reykholti

Lilja, Guðveig og Bergur undirrituðu viljayfirlýsinguna í Snorrastofu.
Lilja, Guðveig og Bergur undirrituðu viljayfirlýsinguna í Snorrastofu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði í vikunni viljayfirlýsingu um að kanna möguleikann á því að Snorrastofa fái húsnæði Héraðsskólans í Reykholti til umráða fyrir sýningar og gestamóttöku þegar Landsbókasafn Ísland – Háskólabókasafn hefur fært starfsemi sína úr húsinu.

Lilja fundaði með þeim Guðveigu Lind Eyglóardóttir, forseta sveitastjórnar Borgarbyggðar, Bergi Þorgeirssyni forstöðumanni Snorrastofu, Þorgeiri Ólafssyni formanni stjórnar Snorrastofu og séra Hildi Björk Hörpudóttir presti í Reykholti, í Snorrastofu Reykholti á mánudag þar sem viljayfirlýsingin var undirrituð. 

Finna varaeintakasafninu nýtt húsnæði

Tilefni fundarins var undirritun viljayfirlýsingar á milli Menningar- og viðskiptaráðuneytisins, Sveitarfélagsins Borgarbyggðar og Snorrastofu. Í yfirlýsingunni er lýst vilja til þess að kanna möguleikann á því Snorrastofa fái húsnæði Héraðsskólans í Reykholti til umráða fyrir sýningar og gestamóttöku þegar Landsbókasafn Ísland – Háskólabókasafn hefur fært starfsemi sína úr húsinu.

Húsið yrði nýtt til sýninga um Snorra Sturluson og áhrif hans í menningu samtímans, sem og undir sölu veitinga og minjagripa.

Lagt er til að skipaður verði starfshópur til að útbúa þarfagreiningu og kostnaðarmeta nýtingu húsnæðis Héraðsskólans í Reykholti með aðkomu þeirra er undir þess viljayfirlýsingu rita. Samhliða þeirri vinnu mun menningar- og viðskiptaráðuneytið í samvinnu við Borgarbyggð vinna að því að finna varaeintakasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns nýtt húsnæði í sveitarfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert