Sendi Svandísi batakveðjur

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins.
Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Árni Sæberg

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, sendi Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra batakveðjur í umræðum í þinginu í dag.

Jakob Frímann steig í pontu eins og margir fleiri eftir munnlega skýrslu forsætisráðherra vegna stöðu mála í Grindavík.

„Þetta er einkennilegur dagur fyrir margra hluta sakir. Dagur mótmæla á Austurvelli og dagur óvæntra frétta af starfsystur okkar Svandísi Svavarsdóttur, sem glímir nú við illvígan sjúkdóm,“ sagði Jakob í ræðustól Alþingis.

Flokkur Jakobs hafði fyrr í dag lagt fram vantrauststillögu á hendur Svandísi. Hún var síðar dregin til baka í kjölfar þess að Svandís greindi frá krabbameinsgreiningu sinni.

Ein þjóð í einu landi

„Sendum við henni okkar sterkustu strauma, og batakveðjur, og víkjum að sjálfsögðu frá öllu tali um vantraust og stjórnsýslulegar gloppur. En þetta er gleðidagur í því samhengi að hér er þingheimur sameinaður í hjartalagi sínu.

Við getum nokkurn veginn treyst á það hjartalag Íslendingar – þegar svona vá brestur á sem nú hefur blasað við um nokkurra vikna skeið á Suðurnesjum, þá er ekki mikill grunur um hvort við eigum að koma til bjargar og sameinast um að vera ein þjóð í einu landi. Því ber að fagna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert