700.000 einstaklingar deyja árlega í sjálfsvígi

Opinberar tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun sýna að yfir 700.000 einstaklingar falla árlega fyrir eigin hendi á heimsvísu.

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti landlæknis, segir töluna langt því frá að vera ásættanlega en hún skýrist af því hversu misjafnlega löndum víðs vegar um heim hefur gengið að innleiða sjálfsvígsforvarnir og viðurkenna vána. 

Guðrún Jóna ræðir um nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna á vegum Embættis landlæknis í Dagmálum í dag en miðstöðin sjálf og styrktarsjóður í nafni Lífsbrúar voru kynnt fyrir almenningi í síðustu viku.

Löndin komin mislangt

„Stundum kemur þetta bara eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Guðrún Jóna um aðdraganda sjálfsvígs en bendir um leið á að að slík dánarmein geti eðli málsins samkvæmt búið yfir misjöfnun og margslungnum aðdraganda. Oft eigi hann sér einnig hliðstæður sem ráðast gjarnan af áfallasögu og samspili margra samfélagsþátta.

„Oft er það þannig að það er langur aðdragandi og fólk hefur verið einhvern veginn að glíma við kerfið og eitthvað svona en það er alls ekkert alltaf.“

Hún segir Ísland vera nokkuð framarlega í forvörnum gegn sjálfsvígum samanborið við önnur lönd en alltaf sé hægt að gera betur. Sums staðar sé það þannig að í stað þess að styðja fólk sem sér ekki út úr vanlíðan sinni þá er því refsað. Aðgerðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar taka mið af því að berjast gegn þessu. 

„Í sjálfsvígsforvörnum á heimsvísu eru löndin komin svo mislangt. Í sumum löndum er ennþá sko glæpur að gera tilraun til sjálfsvígs eða taka líf sitt.“ 

Segðu frá - það er hjálp að fá

Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi ein-hverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða kross-ins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.

Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg-armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert