Þorsteinn Már krefur Seðlabankann miskabóta

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur höfðað miskabótamál gagnvart Seðlabanka Íslands í kjölfar þess að bankinn hafnaði því að greiða Þorsteini táknræna upphæð vegna brota bankans á persónuverndarlögum.

Magnús Óskarsson, lögmaður Þorsteins, staðfestir við mbl.is að málið varði mikið magn af tölvugögnum sem hald var lagt á árið 2012 og geymdu persónuupplýsingar um Þorstein en einnig fjölda annarra einstaklinga. Þannig geti málið verið fordæmisgefandi fyrir fleiri.

Þorsteinn krefur Seðlabanka Íslands um 2,2 milljónir króna.

Persónuvernd snéri úrskurðinum

Persónuvernd komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hefði ekki brotið gegn persónuverndarlögum með varðveislu sinni á gögnunum, miðlun þeirra áfram til héraðssaksóknara og svo frá héraðssaksóknara til skattrannsóknar.

Síðar var fallist á endurupptöku málsins  með vís­an til nýrra upp­lýs­inga og þá komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að varðveisla Seðlabanka Íslands á persónuupplýsingum hefði ekki samrýmst persónuverndarlögum.

Magnús segir að þar sem Seðlabankanum hafi ekki þekkst boð Þorsteins um að greiða honum táknrænar bætur upp á nokkur hundruð þúsund krónur hafi þessi leið verið farin.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert