Fundu sjö dauða nautgripi: Dæmdur fyrir vanrækslu

Kýr. Mynd úr safni.
Kýr. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt bónda í þriggja mánaða fangelsi fyrir vanrækslu á nautgripum sínum.

Þá er honum einnig óheimilt að hafa nautgripi í umsjá sinni, versla með þá eða sýsla með þá næstu fimm árin.

Vanrækti að fóðra nautgripina

Bóndinn var ákærður fyrir brot á lögum um velferð dýra með því að hafa um einhvern tíma, á tímabilinu frá 2021 fram til 18. nóvember 2022, misboðið og vanrækt á stórfelldan hátt að fóðra og vatna nautgripum sínum.

Einnig er hann sagður ekki hafa tryggt að nautgripirnir fengju læknismeðferð eða þeir væru aflífaðir, og hafa yfirgefið þá í bjargarlausu ástandi, með þeim afleiðingum að sjö nautgripir drápust og lágu dauðir og afskiptalausir í úthúsunum í allnokkurn tíma.

Dauðu nautgripirnir í tveimur stíum

Upphaf málsins er hægt að rekja til þess að lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning, þann 18. nóvember 2022, frá dýralækni um að fyrr þann dag hefðu borist upplýsingar um dauða nautgripi í útihúsum á lögbýli mannsins.

Lögreglumenn fóru á vettvang ásamt dýralækninum og hittu þar fyrir bóndann, sem vísaði strax á sjö dauða nautgripi í fjárhúsi. Um var að ræða tvö naut, tvær kýr, kvígu og tvo kálfa.

Í kjölfarið var fjárhúsið ljósmyndað við rannsókn málsins. Á myndunum mátti meðal annars sjá dauðu nautgripina í tveimur stíum. 

Skýrsla dýralæknisins var meðal gagna í málinu. Þar segir meðal annars: „Gripirnir virðast skinhoraðir þótt erfitt sé að meta það þar sem þeir hafa legið dauðir.“

Viðurkenndi að hafa ekki sinnt fóðrun

Bóndinn viðurkenndi í yfirheyrslu lögreglu að hafa ekki sinnt fóðrun þeirra nægjanlega haustið 2021. Að auki hefði heyfóðrið verið lélegt að gæðum.

Til viðbótar sagði hann að ætluð veikindi hjá gripunum hefðu komið til, en hann hefði ekki haft rænu á að kalla eftir aðstoð vegna eigin aðstæðna.

Gripirnir hefðu því að lokum drepist hver af öðrum í nóvember 2021.

Bóndinn ekki á sakaskrá. 

Að mati dómsins voru brot mannsins talin stórfelld og þótti refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi. 

Hann hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins ekki áður sætt refsingu.

Í ljósi atvika og hnökralauss sakaferils þótti fært að skilorðsbinda refsingu mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert