Kjartan vill ekki upplýsa hverjir leituðu styrkja

Kjartan Gunnarsson
Kjartan Gunnarsson mbl.is/Ómar

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segist vita hverjir höfðu milligöngu um að fá styrki frá FL Group og Landsbankanum. Hann vill ekki upplýsa hverjir það voru. Hann segir að þeir eigi sjálfir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Kjartan segir að með afsögn Andra Óttarssonar sem framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokks hafi ekki allir enn axlað ábyrgð í styrkveitingamálinu. 

„Það liggur fyrir að Andri hafði ekki milligöngu um þetta. Það liggur auðvitað fyrir yfirlýsing Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns flokksins, þar sem hann tekur hina pólitísku ábyrgð á þessari ákvörðun. En ennþá hefur það ekki komið fram hverjir það voru sem höfðu samband við þessi tvö fyrirtæki, FL Group og Landsbankans,“  sagði Kjartan.

Kjartan upplýsti að hann hefði haft aðstöðu til þess að kynna sér það hvernig málið bar að í Landsbankanum. „Og það bar ekki að með þeim hætti að Andri Óttarsson hefði samband við Landsbankann,“ sagði Kjartan og tók fram að hann gæti ekki upplýst um nöfn á því fólki í því sambandi. Spurður hvort hann hafi komið þar að nærri svaraði hann því neitandi.

„Ég hef greint forystu Sjálfstæðisflokksins frá því hvernig þetta mál bar að í Landsbankanum,“ sagði Kjartan og tók fram að sú skylda hvíldi fyrst og fremst á þeim sem höfðu samband við Landsbankann og önnuðust málið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skýra frá málinu. „Þeir vita það sjálfir og þeim ber að skýra frá því. Ég vil að þeir sem gerðu það fái kost á því að gera hreint fyrir sínum dyrum sjálfir.“

Þingmenn Sjálfstæðisflokks sitja nú á fundi þar sem málið er rætt. Í samtali við kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins sagðist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vita hverjir hafi leitað eftir umræddum styrkjum frá FL Group og Landsbankanum. Spurður hverjir það væru segist Bjarni ekki vilja upplýsa það að svo stöddu, en að hann muni greinar frá því síðar. 

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is
mbl.is