Guðlaugur staðfestir styrkina

Frambjóðendur flokkanna á borgarafundinum á Nasa.
Frambjóðendur flokkanna á borgarafundinum á Nasa. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður staðfesti í kjördæmaþætti í Ríkissjónvarpinu, sem var að hefjast á veitingastaðnum Nasa í Reykjavíkurkjördæmi suður, að hann hefði þegið 2 milljónir króna í styrk frá bæði Baugi Group og FL Group vegna prófkjörs fyrir næst síðustu alþingiskosningar, eins og DV greindi frá í dag.

„Miðað við það umhverfi sem var þá þóttu þetta ekki háar upphæðir,“ sagði Guðlaugur í þættinum.

Guðlaugur Þór sagði prófkjör hafi viðgengist frá 1971 og frambjóðendur hafi alla tíð sótt sér styrki. Sá sem ætli að fara í prófkjör þurfi að sækja styrki frá fyrirtækjum. Hann segir að 40 aðilar hafi styrkt sig í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2006. Rétt sé að Baugur Group og FL Group hafi styrkt sig í prófkjörinu og hámarksstyrkur hjá þessum fyrirtækjum hafi verið 2 milljónir.

Þegar Guðlaugur var spurður hvort eðlilegt væri að þiggja svona háa styrki frá nátengdum aðilum, sagði hann að þetta hefðu ekki verið háar fjárhæðir í því umhverfi, sem þá var. Aðalatriðið sé, að styrkirnir komi frá mörgum aðilum. „Ég hef farið eftir öllum þeim reglum, sem um prófkjör fjalla, og það eru leiðbeiningar frá skattayfirvöldum," sagði Guðlaugur Þór.

Hann lýsti því yfir, að hann hefði aldrei hyglað einu eða neinu fyrirtæki og myndi ekki gera það í nútíð eða framtíð.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagðist vera þeirrar skoðunar, að kostnaður vegna prófkjara hefði farið úr böndunum. Það væri einnig skoðun löggjafans sem hefði sett lög um styrki til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna í lok ársins 2006.

Össur sagðist vera til í það með öðrum þingmönnum að leggja öll spil varðandi prófkjörskostnað á borðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina