Yfirgáfu kappræður í Hörpu

Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson Ómar Óskarsson

Forsetaframbjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson, Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Hannes Bjarnason hafa yfirgefið kappræður Stöðvar 2 sem haldnar eru í Hörpu. Þau skoruðu á aðra frambjóðendur að gera slíkt hið sama. Í kjölfarið gengu þau út og var hlé gert á sjónvarpsútsendingu Stöðvar 2.

„Ljóst er að sá kappræðufundur sem okkur var boðið til er í raun fundur með spurningum og svörum til tveggja frambjóðenda í einu og þar með fjarri öllum umræðum frambjóðendanna sex. Af þessu fréttum við í dag og Þóra og Ólafur Ragnar standa saman í lokin eins og upphaflega var áætlað,“ sagði Ari Trausti í yfirlýsingu í beinni útsendingu á Stöð 2.

Ari Trausti hélt áfram og sagði: „Sem lágmarkskröfu höfum við sett fram þá eindregnu beiðni, gerðum það í dag með fréttatilkynningu, að dregið yrði um röð frambjóðenda í pör. Bæði hvað varðar tímaröðina og einstaklinga sem standa saman.“

Því næst tók Andrea Jóhanna við og sagði: „Þessu hafnaði fjölmiðillinn af tæknilegum ástæðum, innan við klukkustund fyrir útsendingu. Að þessu fengnu ákváðum við, ég; Ari Trausti og Hannes, að yfirgefa fundinn og skora á Þóru og Ólaf Ragnar að gera slíkt hið saman. Okkur er misboðið.“

„Lýðræði er jafnrétti og jafnrétti er mannréttindi. Við viljum láta koma vel fram við okkur af öllum fjölmiðlum,“ sagði Andrea Jóhanna. Því næst gengu þau út við langt lófaklapp áhorfenda í sal. Stutt hlé var gert í kjölfarið á þessari uppákomu.  

Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi.
Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi. mbl.is
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina