Sakar Framsókn um hræðsluáróður

Guðrún Bryndís Karlsdóttir.
Guðrún Bryndís Karlsdóttir.

Guðrún Bryn­dís Karls­dótt­ir, sem skipaði annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í vetur, segir að umræða flokksins um mosku snúist ekki um skipulagmál heldur snúist hún um það að halda á lofti hræðsluáróðri og ala á ótta við hið óþekkta og að afla sér atkvæða út á það.

Þetta kemur fram í grein sem Guðrún skrifar í Kvennablaðið, en þar kemur fram að hún geti ekki lengu þagað samvisku sinnar vegna í ljósi þess hvernig umræðan hafi „þróast með ógnvekjandi hætti undanfarna daga“.

Eftir að Óskar Bergsson, sem skipaði efsta sæti listans í vetur, ákvað að draga sig í hlé í vor hófust umræður um hver ætti að taka við oddvitasætinu, en um tíma kom til álita að Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, tæki sætið. Guðrún ákvað að hætta þar sem ekki hafi verið óskað eftir því að hún skipaði efsta sæti listans. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir tók svo við sem oddviti flokksins í Reykjavík í apríl.

„Það átti ekki að koma mér á óvart að andstaða við byggingu mosku kæmi upp á yfirborðið, því sannarlega hafði ég heyrt þann málflutning innan Framsóknarflokksins. Ég hélt þó að umræðan um það mál og um múslima kæmist aldrei á það stig sem raunin er orðin, en auðvitað er best að svona afstaða komi upp á yfirborðið og að öllum sé þá ljóst hvert flokkurinn stefnir,“ skrifar hún.

Guðrún segir m.a. frá fundi sem hún átti með Benedikt Þór Gústafssyni, sem þá var varaformaður kjörnefndar, en hún segir að tilgangur fundarins hafi verið „að fræða mig um kristin gildi flokksins og að verkefni þeirra sem kæmust í borgarstjórn væri að koma í veg fyrir að moska risi í Reykjavík.“

Hún greinir frá því, að Benedikt hafi bent á að Ísland væri eitt þeirra landa sem væri nokkurn veginn laust við íslam, stærð safnaðarins réttlæti ekki bygginguna og að áformin um byggingu hefðu þann tilgang einan að fjölga áhangendum íslam.

„Fleira fræddi Benedikt mig um, svo sem það að fjármögnun byggingarinnar kæmi frá olíugróða ríkra múslima sem hefðu byggt moskur í nágrannaríkjunum og að reynslan þar hefði skilað sér í mikilli fjölgun múslima sem væru nú að taka völdin. Félagslegu áhrifin væru hverfi múslima sem þægju styrki frá skattgreiðendum, þar sem lög landsins næðu ekki yfir slíkt. Brátt myndu ganga í gildi sharialög þar sem refsingin væri að hendur væru höggnar af fólki og það grýtt,“ skrifar Guðrún.

Þá segist Guðrún ekki hafa verið „rétt forrituð í húmornum“ þar sem henni þótti orðið múslimur ekki fyndið „enda þótt „músatyppi“ fylgdi með til áréttingar og útskýringar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert