Kosningalöggjöfin „skrípaleikur“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Furðu sætir að utankjörfundaratkvæðagreiðsla sé hafin fyrir forsetakosningarnar þrátt fyrir að fæstir þeirra sem hafa tilkynnt um framboð hafi skilað inn gögnum, að mati Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún fullyrðir að kosningalöggjöfin sé skrípaleikur.

Í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar í morgun gerði Ragnheiður athugasemd við að utankjörfundaratkvæðagreiðslan væri hafin þrátt fyrir að kjósendur hefðu í raun ekki hugmynd um hverjir væru í framboði. Frestur til að skila inn gögnum um framboðin væri enn ekki liðinn og fara þyrfti yfir þau gögn til að staðfest sé að framboð þeirra sem hafa tilkynnt um þau teljist lögleg.

Spurði hún hvers konar lög það séu sem Alþingi setji um kosningar ef hægt er að fara fram með þessum hætti.

„Mér þykir leitt að orða það með þessum hætti en þessi kosningalöggjöf til forsetakjörs, til æðsta embættis lýðveldisins, hún er skrípaleikur eins og hún liggur fyrir í dag,“ sagði Ragnheiður.

mbl.is