Samstarf en ekki kosningabandalag

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef ekki orðið var við neinn stuðning við hugmyndir um kosningabandalag með öðrum flokkum innan raða Pírata,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is. Þar segist hann eiga við formlegt kosningabandalag þar sem flokkar gangi í eina sæng fyrir kosningar. Hins vegar sé allt opið um samkomulag um að vinna saman eftir kosningar.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tekur í sama streng. Aldrei hafi verið inni í myndinni að mynda formlegt kosningabandalag. Hún hafi þó notað það hugtak á sínum tíma en ekki verið að lýsa fyrirkomulagi þar sem um eitt framboð væri að ræða. Hún hafi hins vegar talað fyrir því að flokkar gerðu bindandi samkomulag fyrir kosningar um að starfa saman að þeim loknum á grundvelli ákveðinna stefnumála. Þannig myndu kjósendur vita að hverju þeir gengju.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, talaði á svipuðum nótum á dögunum en notaði þó ekki hugtakið kosningabandalag. Sagðist hún algerlega tilbúin að ræða samkomulag á milli stjórnarandstöðuflokkanna um samstarf eftir kosningar. Það væri gagnlegt fyrir kjósendur að vita ekki aðeins fyrir hvað þeirra flokkur stæði heldur einnig með hverjum hann væri tilbúinn að starfa í mögulegri ríkisstjórn að kosningunum loknum.

Frétt mbl.is: „Algjörlega tilbúin“ í kosningabandalag

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is