Forseti ætti ekki að velja eftirmann sinn

Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason mættust í Eyjunni síðdegis.
Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason mættust í Eyjunni síðdegis.

Hvorki Andri Snær Magnason né Halla Tómasdóttir hafa í hyggju að bjóða sig fram til Alþingis ef þau ná ekki kjöri til embættis forseta Íslands. Þá hyggst hvorugt þeirra draga framboð sitt til baka. Þetta sögðu þau í sjónvarpsþættinum Eyj­unni, í stjórn Björns Inga Hrafns­son­ar, á Stöð 2 síðdeg­is.

Þeir fjór­ir fram­bjóðend­ur sem hafa mælst með mest fylgi þeirra sem bjóða sig fram til embætt­is for­seta Íslands voru gest­ir í þætt­in­um, en Andri Snær og Halla mætt­ust í fyrri hluta þátt­ar­ins og Guðni Th. Jó­hann­es­son og Davíð Odds­son mætt­ust í síðari hlut­an­um.

Sögðu kosningabaráttuna vera á jákvæðum nótum

Andri Snær sagðist finna fyrir meðbyr og sagðist telja að fylgi hans myndi aukast. Hann sagðist hafa lært mikið af baráttunni fram til þessa en væri enn að þjálfast. Hann sagði baráttuna hafa verið skemmtilega. Halla sagðist finna fyrir miklum stuðningi og það væri bjart fram undan hjá henni ef fylgi hennar myndi halda áfram að aukast í sama mæli og fram að þessu. Hún sagðist telja sig hafa mikilvægt innlegg í kosningabaráttuna.

Bæði Andri Snær og Halla sögðust telja að kosningabaráttan færi fram á jákvæðum nótum og ekki hefði borið á neikvæðni. Þau sögðust ekki vilja taka þátt í neikvæðri umræðu. Andri Snær nefndi sérstaklega til sögunnar hversu auðvelt væri að skapa umtal. „Svo er svo slæmt að þú kemst ekki í fréttir nema að skapa núning. Ef ég segi eitthvað slæmt um Höllu þá er það pikkað upp en ekki það að ég hafi hrósað henni,“ sagði hann.

Forseti ætti ekki að velja eftirmann sinn

Halla sagðist ekki telja rétt að sitjandi forseti ætti að velja hverjir þættu hæfir frambjóðendur til forsetaembættisins þegar Björn Ingi spurði hana út í það að Ólafur Ragnar Grímsson hefði dregið framboð sitt til baka eftir að einn helsti sérfræðingur landsins um embættið og sá maður sem mesta reynslu hefði af ríkisráði, að sitjandi forseta undanskildum, hafi boðið fram krafta sína. Hún tók sérstaklega fram að hún bæri virðingu fyrir skoðun sitjandi forseta og sagði hann hafa staðið sig vel þau 20 ár sem hann hefur setið í embættinu.

„Forsetinn lýsti bæði Kristján Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur vanhæf því hvorugt þeirra uppfyllti þessar kríteríur,“ sagði Andri Snær spurður um sama mál.

Þjóðin hafi ekki lært nóg af hruninu

Halla var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs frá árinu 2006 fram á haustmánuði 2007. Björn Ingi spurði Höllu meðal annars út í tillögur ráðsins frá þeim tíma. „Ég hef gert þennan tíma upp sjálf prívat og persónulega,“ sagði Halla. Hún bætti því við að hún hefði aldrei verið sammála þeim fyrirtækjum og félögum sem hún starfaði hjá í einu og öllu. Það hefði átt við jafnt „þá sem nú“. 

Þá sagðist hún ekki telja að þjóðin hafi lært nóg af hruninu. „Fólk þurfti ekki að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna,“ sagði hún og benti á að menn, sem hefðu verið á himinháum launum því þeir áttu að bera ábyrgð, hafi flúið frá skyldum sínum þegar fór að halla undan fæti. Á endanum hafi þeir ekki borið nægilega ábyrgð.

Ekki fundið fyrir umræðu um listamannalaun í baráttunni

Andri Snær lagði mikla áherslu á læsi, skapandi hugsun og umhverfismál. Þá spurði Björn Ingi hann út í umræðuna um listamannalaun. „Þjóðsagan er sú að ég hafi ekki skrifað bók í tíu ár en fengið samt fimmtíu milljónir. Það gengur eiginlega ekki upp þegar ég vann tvisvar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á þeim tíma,“ sagði Andri en bætti við að hann hefði ekki fundið fyrir umræðunni í kosningabaráttunni. 

Halla og Andri Snær lögðu bæði mikla áherslu á að jafnréttismál væru mikilvæg og það þyrfti að leggja áherslu á þau. Þá sögðust þau bæði trúa á guð og Andri sagðist stundum leita til hans.

mbl.is