Bjarni Benediktsson fær umboðið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við fjölmiðlamenn og kynnti …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi við fjölmiðlamenn og kynnti ákvörðun sína um að veita Bjarna Benediktssyni umboð til stjórnarmyndunar. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur falið Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til að hefja stjórnarviðræður. Sagði hann þennan kost vera vænlegastan til árangurs eftir niðurstöður kosninga. Þetta kom fram á fréttamannafundi sem forsetinn hélt á Bessastöðum eftir að hafa átt fund með Bjarna klukkan 11. 

Sagði Guðni að engar skýrar línur hefðu myndast í fyrstu umferð viðræðna sinna við formenn flokkanna. Í framhaldinu hefði hann rætt betur í gær við forystumenn flokka sem nefndir voru til að leiða viðræðurnar. Þetta voru Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Hann hafi þó valið Bjarna þar sem það væri vænlegasti kosturinn.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

„Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka á þingi með tæplega 30% stuðning í nýliðnum alþingiskosningum. Það er ljóst að í stöðunni eins og hún er núna er þessi kostur vænlegastur til árangurs. Það er greinilegt eftir viðræður síðastliðinna daga að þetta er vænlegasta leiðin til myndunar ríkisstjórnar, eins og sakir standa," sagði Guðni. 

Hann sagði á fundinum að Bjarni muni skila honum skýrslu um gang mála. „Við miðuðum við það, við formaður Sjálfstæðisflokksins, að um helgina eða í byrjun næstu viku hefði komið í ljós hvernig gengi og hann gæfi mér skýrslu um það. Við tökum svo ákvörðun í því framhaldi um næstu skref.“

Hraðar en oft áður

Sagði Guðni að ferlið að veita umboðið hefði gengið hraðar fyrir sig en oft áður. Engu að síður hefði hann viljað vanda sig. „Við flókna stöðu eins og þessa, fyrr á tíð, kom fyrir að umboð til stjórnarmyndunar var veitt um það bil hálfum mánuði fyrir kosningar, þannig að hér hafa verið viðhöfð hröð handtök.“

Spurður hvort einhver annar formaður en Bjarni hefði komið til greina til að fá umboð til stjórnarmyndunar sagði hann: „Ég útilokaði ekkert og vildi að sá yrði fyrir valinu sem líklegastur yrði til að geta myndað stjórn. Til þess þurfti ég eins til tveggja daga ráðrúm og til þess þurftu leiðtogarnir líka að ráða ráðum sínum," sagði Guðni.

Bjarni Benediktsson er mættur á fund forseta.
Bjarni Benediktsson er mættur á fund forseta. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is