Líklega verður hægt að kjósa utan kjörfundar á morgun

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fór fram í Perlunni í fyrra.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fór fram í Perlunni í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Lög um kosningar til Alþingis kveða á um að kosningu utan kjörfundar skuli hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Eftir þann tíma eiga kjósendur aftur á móti rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar.

Að því gefnu að kjördagur verði auglýstur í Stjórnartíðindum á morgun, líkt og búist er við, eiga kjósendur rétt á að mæta til sýslumanns í sínu kjördæmi til að kjósa utan kjörfundar. 

Ekki hafa verið gerðar ráðstafanir um sérstakan kjörstað utan skrifstofu sýslumannsins en að sögn Þórólfs Halldórssonar, sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, hóf embættið leit að húsnæði sem hentar fyrir kjörstað utan kjörfundar strax á föstudag. „Við erum svolítið að fiska í gruggugu vatni að leita af hentugu húsnæði sem hægt er að nota og fá með skömmum fyrirvara,“ segir Þórólfur. 

Í fyrra var sérstakur kjörstaður í Perlunni en nú hefur nýtingu Perlunnar verið breytt og því ekki víst hvort hægt verði að nýta það húsnæði. „Það þarf húsnæði sem er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og aðgengið verður að vera gott,“ segir Þórólfur. 

mbl.is