Ekkert í lögunum eykur hættu á mansali

Alþingi samþykkti í gær breytingar sem gerðar voru til bráðabirgða ...
Alþingi samþykkti í gær breytingar sem gerðar voru til bráðabirgða á útlendingalögum. mbl.is/Ófeigur

Lögfræðingur Rauða krossins hefur ekki áhyggjur því að hætta á mansali skapist með breytingum sem gerðar voru til bráðabirgða á útlendingalögum í gær, líkt og dómsmálaráðherra hefur talað um.

„Ef þetta er samþykkt og það spyrst út að hér sé lög­gjöf sem sé sér­sam­in fyr­ir fólk með börn þá hafa vaknað spurn­ing­ar hjá mér og fleiri fagaðilum um hvort það skapi raun­veru­lega hættu á man­sali. Að hingað komi fólk með börn og fái sérmeðferð,“ sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við Morg­un­blaðið í gær.

Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, deilir ekki áhyggjum ráðherrans. Hún áttar sig í raun ekki á ummælunum, enda sér hún ekkert í lögunum sem gæti aukið hættuna á mansali.

Einfaldlega verið að þrengja tímarammann

„Í fyrsta lagi þá gilda þessi lög bara um fólk sem er nú þegar komið hingað til lands. Fólk sem kemur hingað í dag fellur ekki undir lögin. Þetta gengur ekki upp að því leyti. Í öðru lagi þá þýðir þetta ekki að allir sem hingað koma og fari í Dublinarferli, fái hæli. Þetta gildir bara um þá sem hafa verið hérna í níu mánuði eða lengur. Það sama á við um 15 mánuðina. Þetta þýðir ekki að fólk sem kemur hingað í leit að alþjóðlegri vernd, eigi miklu betri möguleika. Stjórnvöldum er einfaldlega bara settur þrengri tímarammi til að leysa úr málunum,“ segir Guðríður.

Í þeim örfáu tilfellum þar sem fólk hefur komið hingað til lands með börn sem það á ekki hefur lögregla tekið á málum, að sögn Guðríðar. Þeim börnum hafi annað hvort verið komið til síns heima eða í skjól. Hún segir ekkert benda til að slíkum tilfellum muni fjölga. „Hafi stjórnvöld raunverulegar áhyggjur af þessu þá þarf auðvitað að grípa til aðgerða til að auka fræðslu og skýra verklagsreglur í tengslum við skimun og rannsókn á mögulegu mansali svo við getum þá veitt þessum börnum viðeigandi aðstoð og vernd.“

Hún segir líkamsrannsóknir hafa verið framkvæmdir hér á landi á börnum og foreldrum til að ganga úr skugga um fjölskyldutengslin séu til staðar. Þær hafi þó ekki verið framkvæmdar á hælisleitendum. „Það á því ekki að vera neitt mál að ganga úr skugga um það.“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur að breytingar á útlendingalögum skapi aukna ...
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur að breytingar á útlendingalögum skapi aukna hættu á mansali. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is