Þokkalegt að búa í Kópavogi

Kópavogskirkjan er eitt helsta kennileiti bæjarins.
Kópavogskirkjan er eitt helsta kennileiti bæjarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kópavogur er næstfjölmennasta sveitarfélag landsins. Þar búa tæplega 36.000 manns, eða um tíu prósent landsmanna. Mikill uppgangur hefur verið í bænum síðustu ár og íbúum fjölgað um 11 prósent á fjórum árum. Í Kópavogi er stærsta verslunarmiðstöð landsins, Smáralind. Nýlega var Norðurturn Smáralindarinnar, háhýsi áfast verslunarmiðstöðinni, opnaður, og hefur Íslandsbanki auk fleiri fyrirtækja fært höfuðstöðvar sínar þangað. Bæjaryfirvöld hafa háleitar hugmyndir um svæðið, sem segja má að sé í miðju höfuðborgarsvæðisins. Þar skal koma Borgarlínustopp og á því svæði sem nú er bílastæði og bensínstöð rís nýtt hverfi, 201 Smári.

Í Kópavogi er hæsta hús landsins, þar er sýslumannsembætti alls höfuðborgarsvæðisins til húsa og hvergi á landinu er styttra milli tveggja verslana Vínbúðarinnar (800 metrar úr Smáralind á Dalveg).

Níu framboð berjast um ellefu sæti í bæjarstjórn Kópavogs að þessu sinni: Framsóknarflokkur, BF Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Fyrir Kópavog, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn. Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð hafa myndað meirihluta í bæjarstjórn síðustu ár og Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, gegnt stöðu bæjarstjóra.

Íbúar sem Morgunblaðið ræddi við voru flestir sammála um að gott væri að búa í Kópavogi. Hverfin róleg og stutt væri í alla þjónustu. Greinileg fylgni er milli aldurs kjósenda og þeirra mála sem helst brenna á þeim. Eldri kjósendur nefna helst skort á hjúkrunarrýmum og þjónustu fyrir aldraða. Þeir yngri stöðuna á húsnæðismarkaði. Of lítið framboð sé af ódýru húsnæði sem henti ungu fólki.

Turninn á Smáratorgi lætur tiltölulega lítið fyrir sér fara á ...
Turninn á Smáratorgi lætur tiltölulega lítið fyrir sér fara á myndinni, en er þó hæsta bygging landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Vona að ég deyi hérna“

Jóhanna Líndal hefur búið í Kópavogi síðan 1951. Á þeim tíma var Kópavogur bara lítið þorp og íbúar á annað þúsund og segir hún mikið vatn hafa runnið til sjávar síðan þá. Hún segir gott að búa í Kópavogi.

„Mér finnst þessi bær alveg frábær og ég vona að ég fái að deyja hérna líka,“ segir Jóhanna. Hún segist þó á þeim aldri að henni sé umhugað um hjúkrunarmál og aðstöðu aldraðra. Fjölga þurfi hjúkrunarrýmum í bænum enda séu biðlistar eftir þeim alltof langir.

„En ég er mjög ánægð með barnasvæðin og það hve víða er búið að setja upp tæki fyrir litlu börnin,“ segir Jóhanna. Hún segist ekki vera pólitísk en að hún kjósi þó alltaf. „Ég nenni ekki að hlusta á gjammið í þeim, heldur læt nægja að líta á verkin.“ Þeir sem gera vel fá hennar atkvæði. Aðspurð segist hún telja núverandi bæjarstjórn hafa staðið sig vel. „Þau eru mjög fín, bæði Ármann [Kr. Ólafsson bæjarstjóri] og Theodóra [Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs]. Ég geri ekki upp á milli þeirra.“

Hoppudýnu var núlega komið fyrir á grasfletinum við Gerðasafn.
Hoppudýnu var núlega komið fyrir á grasfletinum við Gerðasafn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Húsnæðismálin mikilvægust

„Ætli það sé ekki helst ódýrt húsnæði, þá sérstaklega fyrir ungt fólk, og bættar almenningssamgöngur,“ segir Jónas Már Torfason, nemi og Kópavogsbúi, aðspurður hvaða mál séu efst í huga hans í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna. Hann segir það sína upplifun að minna sé um átök í bæjarstjórninni en víða annars staðar, svo sem í borginni, þó vitanlega sé áherslumunur á milli flokka.

Jónas segir leikskólamál einnig skipta sköpum fyrir ungt fólk. Dæmi séu um að fólk neyðist til að taka frá pláss hjá dagforeldrum áður en barn fæðist og borga fyrir. Svo eftirsótt séu plássin. Nauðsynlegt sé að gera betur í þeim efnum, og vinna að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, en það sé reyndar vandamál sem eigi við víðar.