Telur ólíklegt að hróflað verði við virkjuninni

Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps.
Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps. mbl.is/Golli

Ólíklegt er að ný hreppsnefnd Árneshrepps, sem tekur til starfa eftir kosningar 26. maí, geri breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hindri þannig að fyrirhuguð Hvalárvirkjun, sem er umdeild meðal íbúanna, verði að veruleika. Þetta er mat Evu Sigurbjörnsdóttur, núverandi oddvita hreppsins. Sjálf er hún eindreginn stuðningsmaður virkjunarinnar.

Eva sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að mikið þyrfti að gerast til þess að hætt yrði við virkjunina. Það væri þó ekki óhugsandi að ný hreppsnefnd tæki málið upp að nýju. „Allt getur svo sem gerst,“ sagði hún. Sveitarstjórn á eftir að gefa út framkvæmdaleyfi og það verður ekki gefið út fyrr en eftir kosningar. Fyrst þarf þó Skipulagsstofnun að samþykkja breytingarnar á aðalskipulaginu í þágu virkjunarinnar, en stofnunin hefur gert athugasemdir við það hvernig staðið var að verki og bíður með staðfestingu þangað til skýringar hafa fengist frá hreppsnefndinni.

Drynjandi. Mörgum er annt um hina einstöku náttúru í Árneshreppi.
Drynjandi. Mörgum er annt um hina einstöku náttúru í Árneshreppi. mbl.is/Golli

Svara Skipulagsstofnun

Eva segir að unnið sé að því að svara fyrirspurn Skipulagsstofnunar sem snýst um hæfi fulltrúa í hreppsnefnd, tilboð framkvæmdaaðila um samfélagsverkefni og innviðauppbyggingu og hvort skipulagstillagan hafi verið unnin af þeim aðila. Ekki er víst að það svar verði tilbúið fyrir kosningar, þar sem í mörg horn sé að líta þessa dagana í Árneshreppi.

Þjóðskrá hefur verið með til athugunar hvort fjölgun íbúa í sveitarfélaginu að undanförnu byggist að einhverju leyti á tilhæfulausum skráningum lögheimila. Ákvað hreppsnefnd því að samþykkja kjörskrá með fyrirvara. Eva segist búast við að fá niðurstöðu frá Þjóðskrá öðrum hvorum megin við helgina. Sem stendur eru 65 á kjörskránni, en í síðustu kosningum voru þeir 43. Fjölgun er því um 40%.

Tilbúin að halda áfram

Enginn listi er í framboði í Árneshreppi og fer því fram óhlutbundin kosning þar sem allir íbúar 18 ára og eldri eru í kjöri. Tveir hreppsnefndarmenn, sem andvígir eru virkjuninni, Ingólfur Benediktsson og Hrefna Þorvaldsdóttir, hafa þó beðist undan endurkjöri. Eva, sem er hlynnt henni, er aftur á móti tilbúin að halda áfram, en segir að ákvörðun um næsta oddvita sé í höndum hreppsnefndar þegar hún hefur verið kjörin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert