Fagnar því að Þór og Birgitta hafi fundið vettvang

Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.
Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari. mbl.is/Ómar

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segist fagna því að Þór Saari og Birgitta Jónsdóttir hafi fundið sinn vettvang í flokki Sósíalista. Þór og Birgitta voru áður Píratar, en sögðu bæði skilið við flokkinn árið 2019. 

Þór Saari, sem áður var þingmaður Hreyfingarinnar rétt eins og Birgitta, sem var einnig þingmaður Pírata, skipar annað sætið á lista Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þór sagði sig úr Pírötum vorið 2019 eftir að flokkurinn ákvað að skipa annan en hann í bankaráð Seðlabankans fyrir hönd flokksins. Við úrsögnina sagði Þór að grunngildi Pírata væru orðin lítið annað en skraut og líkti hann þingflokknum við stefnulaust skip. 

Birgitta tilkynnti það um helgina að hún væri gengin til liðs við Sósíalistaflokkinn. Birgitta sagði sig úr Pírötum sumarið 2019 eftir að þingmenn Pírata og annað valdafólk innan flokksins fór um hana hörðum orðum í aðdraganda þess að greidd voru atkvæði um það hvort hún tæki sæti í trúnaðarráði flokksins. 

„Ég óska þeim bara velfarnaðar og hlakka til að vinna með Sósíalistum að betra samfélagi fyrir alla. Þótt að við séum að mörgu leyti mjög ólíkir flokkar held ég að það sé meira sem sameinar okkur en sundrar. Ég held að við getum alveg unnið vel saman og mér finnst gott að þau hafi fundið einhvern jarðveg fyrir sinn pólitíska eldmóð,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is. 

Halldóra Mogensen, þing­flokks­for­maður Pírata.
Halldóra Mogensen, þing­flokks­for­maður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur þú áhyggjur af því að Sósíalistar eigi eftir að sækja fylgi til Pírata í komandi kosningum?

„Ég lít ekki á það þannig að við séum í einhverri samkeppni um takmarkað fylgi. Málflutningur beggja flokka höfðar til stórs hluta landsmanna og því ættum við hæglega að geta aukið fylgi okkar án þess að veikja fylgi hvor annars. Ég vona að báðir flokkar komi sterkir út úr þessu svo við getum farið að vinna saman að einhverjum alvöru breytingum í samfélaginu,“ segir Halldóra.

Mikið vatn runnið til sjávar 

Halldóra segir að það væri ánægjulegt að fá Birgittu aftur á þing, þó að ekki sé útséð um að hún verði yfirhöfuð í framboði. 

„Ég ber mikla virðingu fyrir Birgittu og hef alltaf gert það. Hún á stóran þátt í því að ég hafi dregist út í stjórnmál og endað á þingi. Það yrði ótrúlega gott að fá hana til baka, þó mér heyrist á henni að hún sé ekki að bjóða sig fram,“ segir Halldóra. 

Hvað varðar framboð Þórs segir Halldóra;

„Mér hefur alltaf líkað ágætlega við Þór en við höfum ekki unnið mikið saman, annað en smá starf í grasrótinni. Ég hef ekki unnið með honum á þingi eins og ég hef unnið með Birgittu.“

Halldóra segir margt hafa breyst síðan Þór yfirgaf flokkinn. 

„Kosningastefnuskráin okkar var samþykkt núna í fyrradag og við erum komin með mjög róttæka og flotta stefnu í hinum ýmsu málum. Það er margt búið að breytast síðan hann Þór fór frá okkur. Fólk verður bara að finna sig í hreyfingunni og hann fann sig ekki hjá okkur Pírötum og það er jákvætt ef hann hefur fundið sig hjá Sósíalistum.“

Þór Saari á Alþingi 2013.
Þór Saari á Alþingi 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hallóra segir komandi alþingiskosningar leggjast vel í sig; 

„Þetta eru orðnir margir flokkar núna og erfitt að sjá hver lokaniðurstaðan verður. Að sjálfsögðu vonumst við til að vera í þannig stöðu að við getum tekið þátt í að mynda ríkisstjórn sem getur hugað að raunverulegum breytingum í samfélaginu. Ég hlakka bara til og er mjög jákvæð gagnvart þessu.“

Hvaða málefni telur þú að eigi eftir að verða efst á baugi fyrir kosningarnar?

„Mér finnst líklegt að faraldurinn muni eiga sinn sess í þessari kosningabaráttu, en mér finnst líka líklegt og ég vona að þessi barátta eigi líka eftir að snúast um nýju stjórnarskrána, loftslagsmál, baráttuna gegn spillingu og efnahagsmálin – hvort að við ætlum að nýta þennan erfiða tíma sem við erum búin að ganga í gegnum til að endurskoða hagkerfið og hvatana þar. Hvort við viljum uppræta fátækt og skapa samfélag sem er tilbúið fyrir fyrirsjáanlegar breytingar framtíðarinnar, eða hvort við ætlum að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið í þeirri úreltu hagfræði sem við erum búin að stunda alltof lengi. Síðan er stóra málið fyrir okkur líka afglæpavæðingin, það er eitthvað sem við héldum að ríkisstjórnin myndi klára áður en þau hættu,“ segir Halldóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert