Fundir við flygilinn

Jakob Frímann Magnússon á sviði.
Jakob Frímann Magnússon á sviði. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég mun sitja við flygilinn og hefja fundina með íhugunartónlist, til að ná stemningu í stafrófi tóna og hljóma. Þetta verður spil, spjall og spuni og þarna verður spurt í hvernig samfélagi við viljum búa. Mínir eyrnahlemmar verða spenntir fyrir því sem fólk hefur fram að færa. Það er hægt að semja lög víðar en við Austurvöll,“ segir Jakob Frímann Magnússon, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi og Stuðmaður með meiru.

Jakob er ásamt öðrum frambjóðendum flokksins á leiðinni í fundaferð um kjördæmið og hefja þeir leik í Síldarminjasafninu á Siglufirði á sunnudaginn kl. 14.

Jakob og félagar verða í Hofi á Akureyri sama dag kl. 17 og kl. 20 á kaffihúsinu Gísli, Eiríkur og Helgi á Dalvík. Á mánudaginn er fundur kl. 17.30 á Hildibrand hóteli í Neskaupstað og kl. 20.30 í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Næsta þriðjudag verður m.a. fundað í Valaskjálf á Egilsstöðum kl. 20.30.

Fundarstaðirnir voru valdir með það í huga að flygill eða píanó væru á staðnum, annars er Jakob einnig með eigið hljómborð með í för.

„Mér líður alltaf vel við flygilinn, finn til slökunar og vanur því að hugsa við hljóðfærið,“ segir Jakob Frímann.

Verður tekið við óskum um stuðmannalög?

„Þegar við hittum fyrir Flokk fólksins, þar sem beðið er um rokk fólksins, þá verður því ekki neitað.“

Aðgangur að fundunum er ókeypis og öllum frjáls.

„Við viljum jafna kjör fólks og þann aðstöðumun sem blasir við utan höfuðborgarsvæðisins. Við munum fanga kjarna þess sem kemur fram á hverjum stað, hvað fólk telur brýnast næstu árin, og fara með það nesti inn í umræðuna,“ segir Jakob.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert