„Þetta tókst, ég kaus rétt“

Katrín Jakobsdóttir greiddi sitt atkvæði í Hagaskóla í morgun.
Katrín Jakobsdóttir greiddi sitt atkvæði í Hagaskóla í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna, greiddi atkvæði sitt í Hagaskóla fyrr í dag. 

Að sögn Katrínar var valið einfalt. Helst truflaði það hana að hún gleymdi gleraugunum heima. „En þetta tókst, ég kaus rétt,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Þá býst Katrín við því að kosninganóttin verði spennandi og að okkur verði haldið í spennu til morguns. Hún bendir á að í gær hafi Vinstri-græn byrjað daginn í ólíkum skoðanakönnunum í rúmlega níu prósentum og síðan farið upp í rúmlega 12 prósent. 

Katrín Jakobsdóttir á kjörstað í morgun.
Katrín Jakobsdóttir á kjörstað í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín tilfinning er að þetta verði góðar kosningar fyrr okkur. Mér finnst ég hafa fengið alveg ofboðslega góð viðbrögð,” segir Katrín og bætir við: 

„Ég held allavega að mjög mörg þarna úti séu að hugsa um okkur sem valkost í dag og auðvitað vona ég bara að við fáum góða niðurstöðu.“

Skiptir máli að fólk geti rætt saman

Spurð um framhaldið segir Katrín það eðlilegt, ef ríkistjórnin heldur meirihluta, að þeir flokkar ræði þá saman. Hins vegar ef ríkisstjórnin fellur þá segir Katrín að hún myndi þá að sjálfsögðu óska lausnar fyrir ráðuneytið. Hér séu ákveðnar hefðir sem haldast í hendur. 

„Við sjáum það að það er auðvitað mjög líklegt að það verði níu flokkar á þingi á morgun og það býður auðvitað upp á töluvert mörg stjórnarmynstur, þannig að ég held að þetta verði alveg heilmikið úrlausnarefni og það skiptir auðvitað máli að fólk geti rætt saman og gert eðlilegar málamiðlanir og hugað að því hvernig það myndar þá starfhæfa ríkisstjórn um sameiginleg málefni til næstu ára,“ segir Katrín.

Forsætisráðherrann elskar lakkrís

Katrín vakti miklu lukku á samfélagsmiðlum í gær þegar hún klæddist lakkrískjól í leiðtogaumræðunum í Ríkisútvarpinu. 

Katrín ákvað að klæðast kjólnum í gær þar sem eiginmaður hennar hafði keypt hann henni til heilla í kosningabaráttunni. 

„Og svo náttúrlega elska ég lakkrís, en það er annað mál,“ segir Katrín að lokum. 

Katrín Jakobsdóttir ræddi við fjölmiðla á kjörstað í dag.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við fjölmiðla á kjörstað í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert