Inga kveður engan en Sigmundur flesta

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sést hér veifa, sem er …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sést hér veifa, sem er viðeigandi þar sem hún heilsar fjórum nýjum þingmönnum. Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins, þarf aftur á móti að sjá að baki nokkrum flokksbræðrum sínum af Alþingi. Samsett mynd/Unnur Karen

Á þriðja tug þingmanna kveðja Alþingi, ýmist fúsir eða tilneyddir, í kjölfar kosninga til Alþingis sem fram fóru í gær. Flestir þingmannanna, eða sex, eru úr Miðflokknum, en Flokkur fólksins kveður ekki einn einasta þingmann þar sem þingmenn flokksins, sem voru tveir, halda báðir sætum sínum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir kveður sviðið en hún var í öðru sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rafney hefur setið á þingi fyrir Vinstri græn frá árinu 2009. Ólafur Þór Gunnarsson í Vinstri grænum dettur einnig af þingi en hann var í þriðja sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir er á förum.
Lilja Rafney Magnúsdóttir er á förum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon, flokksbróðir Lilju og Ólafs, yfirgefur Alþingi af fúsum og frjálsum vilja, enda var hann ekki í framboði, en hann er reynslumesti þingmaðurinn sem kveður. Hann hafði setið á Alþingi frá árinu 1983.

Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé kveðja einnig sviðið en þeir voru ekki ofarlega á lista Vinstri grænna og því var útséð að þeir myndu ekki halda áfram þingstörfum. 

Brynjar Níelsson hefur verið áberandi karakter á Alþingi síðustu ár.
Brynjar Níelsson hefur verið áberandi karakter á Alþingi síðustu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson stimplar sig út

Brynjar Níelsson, sem hefur setið sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2013, fer nú af Alþingi en hann var í framboði til Alþingis í ár og var í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Brynjar kallaði eftir því á Facebook í gær að stuðningsmenn hans mættu á kjörstað, enda hafði því verið spáð að hann myndi falla af þingi. Hann hafði þó áður sagst kveðja stjórnmálin sáttur.

Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem landsmenn munu ekki sjá á Alþingi á kjörtímabilinu eru Sigríður Á. Andersen, Páll Magnússon og Kristján Þór Júlíusson. Ekkert þeirra var þó í framboði svo útséð var með það að kjörtímabilið sem nú er liðið yrði þeirra síðasta, í bili að minnsta kosti.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kveður sviðið.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kveður sviðið.

Jón Steindór náði ekki inn

Jón Steindór Valdimarsson sat á þingi fyrir Viðreisn fram að þessum kosningum en hann dettur nú út af þingi. Jón Steindór bauð sig fram í Reykjavíkurkjördæmi norður og var þar í öðru sæti á lista.

Anna Kolbrún Árnadóttir er á útleið.
Anna Kolbrún Árnadóttir er á útleið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna Kolbrún kveður ásamt Bergþóri og Sigurði

Af Miðflokknum er það að frétta að Anna Kolbrún Árnadóttir sem sat á þingi fyrir flokkinn náði ekki inn á þing að nýju þrátt fyrir að vera í öðru sæti á lista flokksins í norðausturkjördæmi. Hið sama má segja um alþingismennina, nú fyrrverandi, Bergþór Ólason og Sigurð Pál Jónsson en þeir voru báðir í framboði fyrir Miðflokkinn. Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Ísleifsson úr Miðflokknum munu að auki ekki taka sæti á þingi en þeir voru ekki í framboði. Gunnar Bragi Sveinsson var vissulega í framboði en þó í heiðurssæti svo það leit aldrei út fyrir að hann myndi ná á þing, enda sagðist hann í vor ekki ætla að bjóða sig aftur fram. 

Guðmundur Andri Thorsson var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar …
Guðmundur Andri Thorsson var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi en náði ekki inn á þing. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Andri náði ekki í þingsætið að nýju

Þrír þingmenn Pírata munu ekki sitja á næsta kjörtímabili, þeir Smári Mccarthy, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson en enginn þeirra gaf kost á sér í þessum kosningum.

Guðmundur Andri Thorsson Samfylkingarmaður náði ekki inn á þing en hann var í öðru sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hann hafði setið á þingi fyrir flokkinn frá árinu 2017. Guðjón S. Brjánsson og Ágúst Ólafur Ágústsson hjá Samfylkingunni detta út af þingi en enginn þeirra var ofarlega á lista hjá flokknum. 

mbl.is