Ekki enn farin að ræða ráðherrastóla

Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir.
Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd

Formenn ríkisstjórnarflokkanna funduðu í dag um áframhaldandi setu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Fundir munu halda áfram á morgun. 

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is. 

„Við erum ekki farin að ræða ráðherraskipan, nefndarformennsku eða skiptingu verkefna. Við erum enn þá bara stödd í þessum málefnalega grunni,“ segir Katrín og bætir við að flokkarnir þrír sitji enn einir við borðið í viðræðunum. 

Málefnin fyrst

Að hennar mati verður að klára málefnalegar viðræður áður en rætt verður um ráðherrastóla. Væntanlegt ríkisstjórnarsamstarf ræðst á málefnum, að hennar sögn, en ekki á skipan ráðherra. 

„Við erum búin að verja talsverðum tíma í stöðu ríkisfjármála, horfur í efnahagsmálum og höfum eiginlega nýtt tvo síðustu daga í það alfarið,“ segir Katrín. 

Hún segir einnig að viðræðurnar gangi vel og að formenn flokkanna þriggja; hún sjálf, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, séu bjartsýn. 

Spurð hvort tónninn í viðræðunum sé á þá leið að stokka þurfi upp í ráðherraskipan vegna aukins þingstyrks Framsóknar segir Katrín að flokkarnir nálgist viðræðurnar á jafningjagrundvelli. 

„Við höfum á síðustu fjórum árum nálgast verkefnin eins og jafningjar og það hefur verið, held ég, lykillinn að farsæld þessarar ríkisstjórnar. Það er bara þessi gangkvæma virðing og traust milli okkar allra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert