„Þetta eru ótrúlegar tölur sem við erum að sjá“

Einar Þorsteinsson segir tölurnar hafa komið á óvart.
Einar Þorsteinsson segir tölurnar hafa komið á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara stórkostlegt. Þetta eru ótrúlegar tölur sem við erum að sjá.“

Þetta segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík,í  samtali við mbl.is en rétt í þessu voru fyrstu tölur úr Reykjavík birtar.

Þeim var fagnað ákaflega vel í kosningavöku Framsóknar en flokkurinn hlýtur 18,7% talinna atkvæða. 

Kom á óvart

Spurður hvort tölurnar séu óvæntar svarar hann því játandi.

„Ég hafði alltaf trú á því að við myndum ná árangri en þetta er óvænt. Þetta er það mikið. Við höfum greinilega náð til borgarbúa.“

Eftir að tölur höfðu verið birtar ávarpaði Einar gesti á kosningavökunni. Hann þakkaði öllum þeim sem komu að kosningabaráttunni fyrir hjálp sína, en þakkaði sérstaklega eiginkonu sinni Millu Ósk Magnúsdóttur sem fæddi son þeirra fyrir um mánuði síðan.

Þá var lagið All I Do Is Win spilað er Einar lauk máli sínu.

mbl.is