Beðið eftir frumkvæði frá Framsóknarflokki

Nóg er af borgarfulltrúum en meirihluti lætur á sér standa.
Nóg er af borgarfulltrúum en meirihluti lætur á sér standa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sex dagar eru nú liðnir frá borgarstjórnarkosningum en eiginlegar meirihlutaviðræður eru ekki enn farnar af stað. Alls kyns þreifingar hafa þó átt sér stað og allir flokkar að tala við alla, þótt Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingar svari víst ekki enn símanum frá Hildi Björnsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins. Bæði hafa hins vegar rætt töluvert við Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknar, en án þess að hann hafi látið neitt uppi um hvort hann vilji fremur horfa til hægri eða vinstri.

Af samtölum við borgarfulltrúa að dæma hefur mörgum möguleikum verið velt upp en óljóst hvaða hugur fylgir máli. Einn viðmælandi blaðsins orðaði það svo að í þeim póker væri sýnt á ýmis spil en síðan segði enginn neitt.

Eftir því sem næst verður komist bíða stóru flokkarnir tveir þess að Framsókn geri upp hug sinn, en úr þeim herbúðum heyrist helst að Einari Þorsteinssyni liggi ekkert á.

Því eru ekki allir sammála og algengt viðkvæði að hann geti ekki beðið miklu lengur, það þurfi að fara að reyna af alvöru.

Þeirrar óþolinmæði hefur orðið vart hjá smáflokkunum. Sósíalistar hafa viljað fá Vinstri-græn að borðinu aftur en í gær sagði Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, að sér þætti möguleiki á samstarfi við Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Viðreisn frábær. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar sagði hins vegar flokk sinn enn í samfloti með Samfylkingu og Pírötum í þessum efnum, en innan úr Viðreisn heyrist þó enn að fleira komi til greina.

Komi ekki þeim mun skýrari merki í dag er líklegast að eiginlegar meirihlutaviðræður hefjist ekki fyrr en eftir helgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert