Meirihlutaviðræður formlega hafnar í Fjarðabyggð

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð.
Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meirihlutaviðræður eru formlega hafnar í Fjarðabyggð á milli Framsóknarflokksins og Fjarðalistans. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest fylgi í nýliðnum sveitarstjórnarkosningunum, Framsókn bætti við sig manni en Fjarðalistinn missti tvo menn.

„Við höfum verið í samtali þessa vikuna eftir að Framsókn ákvað að byrja á þessum viðræðum í ljósi þess að meirihlutinn hélt. Við ákváðum í dag að taka þetta í svona formlegar viðræður sem munu standa næstu daga og sjá hvert það muni leiða okkur,“ segir Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins í Fjarðarbyggð, í samtali við mbl.is.

„Við tókum óformlegt samtal með Sjálfstæðisflokknum á sunnudaginn en í ljósi þess að meirihlutinn hélt ákváðum við að byrja þar [í viðræðunum].“

Tilbúinn til að vera áfram bæjarstjóri

„Við erum áfram að horfa á fjölskyldumál og fleira en líka að horfa á ný atvinnutækifæri, grænan orkugarð og þá framtíð,“ segir Jón Björn um möguleg stefnumál samstarfs Framsóknar og Fjarðalistans.

Munt þú sækjast eftir því að halda áfram sem bæjarstjóri?

„Ég hef alveg sagt frá byrjun að ég sé tilbúinn til þess og við erum að ræða það allt saman í þessu samhengi núna,“ segir Jón Björn Hákonarson.

mbl.is