Hefur ekkert með útilokunarpólitík eða tryggð að gera

Þórdís Lóa, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir, oddviti …
Þórdís Lóa, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að mati Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur snýst samkoma flokkanna sem mynda mögulegan meirihluta ekkert um útilokunarpólitík. Hún segist spennt fyrir framhaldinu og að flokkarnir muni takast á á næstu dögum. Mbl.is talaði við Þórdísi Lóu, oddvita Viðreisnar í Reykjavík, að loknum fyrsta fundi mögulegs meirihluta í Reykjavík.

Sagði Þórdís Lóa ástæðuna fyrir því að Viðreisn hafi lokað á þann möguleika að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum hafa ekkert með útilokunarpólitík eða tryggð við fyrri meirihluta að gera. Þórdís Lóa sagði ástæðuna fyrir þessu vera þá að Viðreisn hafi lesið í niðurstöður kosninga þannig að þetta samstarf væri vilji kjósenda.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði í samtali við mbl.is í gær að pólitíkin hafi verið hatrömm innan veggja borgarstjórnar og að flokkar hafi ástundað útilokunarpólitík.

„Þetta snýst um það að við lesum í niðurstöður kosninganna þannig að 60 prósent af kjósendum kusu flokka sem eru mjög skýrir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum sem voru langstærstu málin í kosningabaráttunni,“ segir Þórdís Lóa.

Bendir Þórdís Lóa á að fyrrverandi minnihluti hafi misst þrjá borgarfulltrúa og að meirihlutinn hafi aðeins misst tvo borgarfulltrúa. Að hennar mati er ekki hægt að segja að meirihlutinn hafi fallið af því að minnihlutinn hafi einnig misst fylgi. 

Mögulegur meirihluti fundaði í dag.
Mögulegur meirihluti fundaði í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Muni takast á

Spurð um það hvort hún finni fyrir einhverjum breytingum núna, þegar Framsóknarflokkurinn er kominn inn í samstarf flokkanna úr fyrri meirihluta, segist Þórdís Lóa finna fyrir miklum breytingum. „Já alveg helling og það er bara gaman. Auðvitað eigum við alveg eftir að takast á, alveg pottþétt en það er bara þannig,“ segir Þórdís Lóa. 

Þórdís Lóa segist vera spennt fyrir áframhaldandi viðræðum og að allt geti gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert