Sátt við að deila embættinu

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnafjarðarbær

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, kveðst ákaflega ánægð með niðurstöður meirihlutaviðræðna í Hafnarfirði og er hún sátt við að deila bæjarstjórastólnum með samstarfsfélaga sínum Valdimar Víðissyni, oddvita Framsóknarflokksins, á komandi kjörtímabili.

Hún segir aðalatriði að áherslum sjálfstæðismanna verði haldið á lofti í bæjarstjórn en þetta mun vera í fyrsta sinn í 40 ár sem að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sæti sínu í meirihluta þrjú kjörtímabil í röð í Hafnarfirði.

Spennt fyrir embætti formanns

Greint var frá því fyrr í dag að samkomulag um myndun nýs meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði væri í höfn. Vakti þar athygli að Rósa myndi aðeins halda embætti sínu sem bæjarstjóri til 1. janúar 2025, en þá tekur Valdimar við. Fram að því mun hann vera formaður bæjarráðs en Rósa mun ganga í það embætti þegar stjórnarskipti verða.

Rósa kveðst spennt fyrir nýja hlutverkinu sem hún segir gríðarlega mikilvægt en hún hefur áður sinnt því starfi.

Gott að byrja seinna

Valdimar Víðisson kveðst spenntur fyrir nýja hlutverkinu en telur þó ágætt að hefja kjörtímabilið sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs til að kynnast hlutverkinu aðeins betur áður en hann tekur við embættinu.

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði.
Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Hann telur sig þó klárlega tilbúinn í þetta verkefni sem er framundan enda býr hann yfir ágætri reynslu af stjórnunarstörfum, til að mynda vegna starfs hans sem skólastjóri Öldutúnsskóla og formaður fjölskylduráðs í Hafnarfirði.

mbl.is