„Þetta er nýr meirihluti og önnur dýnamík“

Mögulegur meirihluti borgarstjórnar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík …
Mögulegur meirihluti borgarstjórnar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík er fyrst til vinstri á myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

mbl.is hitti á Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata í Reykjavík, að loknum fyrsta fundi mögulegs meirihluta þar sem hún sagði viðræður fara mjög vel af stað og að það sé góð stemming í hópnum þrátt fyrir að um sé að ræða nýjan meirihluta og ákall eftir breytingum frá Framsóknarflokknum.

Spurð um hvaða áhrif það hafi að fá Framsókn inn í samstarf flokkanna úr fyrri meirihluta segir Dóra að auðvitað sé um að ræða nýjan meirihluta. „Þetta er náttúrulega nýr meirihluti og ég finn það strax að það er önnur dýnamík,“ segir Dóra og bætir við að hún upplifi þetta sem ferskt upphaf og tækifæri til að gera hlutina enn betur.

Aðspurð segist Dóra finna fyrir sókn eftir breytingum frá Framsóknarflokknum þó hún vilji ekki nefna hvaða atriði það séu sem sótt er eftir að breyta. „Já algjörleg, það er alltaf hægt að endurskoða áætlanir með tilliti til nýrra upplýsinga og gera hluti enn betur. Þessi brýning er þörf og fín,“ segir Dóra. 

Dóra segir að það séu málefni sem sameini alla flokkanna í mögulegum meirihluta en það eru húsnæðismálin og samgöngusáttmáli. „Þetta eru öndvegismál sem skipta öllu,“ Bætir Dóra við.

Spurð um hvaða þýðingu það hafi fyrir Pírata að vera eini flokkurinn úr fyrri meirihluta í Reykjavíkurborg til að bæta við borgarstjórnarfulltrúa segir hún að það hljóti að þurfa að endurspeglast í mögulegum meirihlutasáttmála. Segir hún þá að það þurfi að komast í ljós seinna meir hverju Píratar sækjast eftir meira en öðru. 

Að lokum segir Dóra að flokkarnir ætli að nýta næstu daga mjög vel enda sé stutt til stefnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert