Besti dagur ársins er í dag að sögn bresks vísindamanns

Það er svo sannarlega ástæða til að brosa í dag …
Það er svo sannarlega ástæða til að brosa í dag ef marka má niðurstöðu bresks vísindamanns. Reuters

Ertu öllu glaðari þennan föstudag en venjulega? Þú ættir alla vega að vera það ef marka má niðurstöður sérfræðings á sviði árstíðabundinna kvilla hjá breskum háskóla.

Cliff Arnall hefur greint ýmsa þætti s.s. athafnir utandyra, náttúru, félagsleg tengsl, æskuminningar, hitastig og frí. Arnall hefur safnað þessum upplýsingum sl. 15 ár með viðtölum við 3.000 manns vítt og breitt um heiminn. Niðurstaða hans er sú að 23. júní sé besti dagur ársins.

„Fólk vítt og breitt um heiminn upplifir gleði þegar það hittir vini og fjölskyldu og stofnar til félagslegra sambanda,“ sagði Arnall, sem starfar hjá háskólanum í Cardiff. „Við þurfum á nánum tilfinningalegum tengslum að halda.“

Arnall notaðist við það sem hann kallar „einfalda jöfnu“ til þess að komast að ofangreindri niðurstöðu, en hún er: O + (N x S) + Cpm/T + He.

O stendur fyrir útiveru, N fyrir náttúru, S fyrir félagslegar athafnir, Cpm fyrir sumarið þegar fólk var börn og jákvæðar minningar. Þá stendur T fyrir hitastig og He fyrir sumarfrí og tilhlökkunina við að komast í frí.

Þess má geta að Arnall var búinn að komast að því hvaða dagur ársins væri sá versti. Það er 23. janúar og það kemur væntanlega engum á óvart að sá dagur lenti á mánudegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina