Forsvarsmenn Wikipedia íhuga nú að setja strangari reglur um það hverjir megi gera breytingar á efni þessa alfræðirits á netinu eftir að netbullur breyttu greinum um tvo bandaríska öldungadeildarþingmanna í þá vera að segja þá ranglega látna.
Stofnandi Wikipedia, Jimmy Wales, hefur gert tillögu um nýja aðferðarfræði, svokallaða „flöggun breytinga“ til að fyrirbyggja skemmdarverk á borð við þau sem áttu sér stað með greinarnar um Ted Kennedy og Robert Byrd öldungadeildarþingmenn.
Tillagan sem samþykkt var af með hlutfallinu 60-40 í atkvæðagreiðslu á netinu, gerir ráð fyrir að nýliðum og nafnleysingjum verði ekki heimilt að gera breytingar sem komi fram þegar í stað heldur verði þær að hljóta samþykki traustra notenda áður en breytingarnar eru birtar.
„Þessa dellu hefði verið hægt að fyrirbyggja 100% með „flöggun breytinga“, segir Wales á umræðuvefsíðu Wikipedia.
Miklar og heitar umræður hafa orðið um tillöguna. Wikipedia stærir sig af því að allir með nettengingu geti lagt til efni eða endurbætt færslur sem fyrir eru.
Wales lýsti áhyggjum yfir því að nýja aðferðafræðin gæti seinkað birtingu á sumu efni en kvaðst þó telja hana óhjákvæmilega.
Hann hefur gefið andstæðingum tillögunnar tvær vikur til að benda á aðrar og betri lausnir.
Wikipedia er meðal þeirra vefsetra á netinu sem flestar heimsóknir fær eða allt að 6 milljónir gesta á dag.
Kennedy sem er að berjast við krabbamein í heila, hné niður í matarveislu við innsetningu Barack Obama sem Bandaríkjaforseta og var lagður inn á sjúkrahús um tíma.
Wikipediufærslu um hann var breytt skömmu síðar og hann sagður látinn en það var leiðrétt örfáum mínútum síðar.