Dýrin í sjónum hafa stækkað

Steypireyður á sundi. Hvalirnir eru meira en 100.000 sinnum stærri …
Steypireyður á sundi. Hvalirnir eru meira en 100.000 sinnum stærri en stærstu sjávardýrin á kambríumtímabilinu.

Sjávardýr á jörðinni hafa farið stækkandi frá kambríumtímabilinu. Ástæðan er talin sú að náttúruval hygli stærri dýrum í sjónum. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar nýrrar rannsóknar á sjávarlífi. Dýrin í sjónum hafa stækkað 150falt á síðustu rúmu 500 milljón árum.

Þróunina í átt til stækkunar er ekki hægt að rekja til tilviljunar og hún bendir til þess að stærri dýrum reiði almennt betur af í hafinu, samkvæmt rannsókninni sem birtist í tímaritinu Science. Talið er að þegar að sprenging varð í fjölda dýrategunda á kambríumtímabilinu fyrir um hálfum milljarði ára hafi þróunin færst í auknum mæli í átt að stærri dýrum.

Minnstu sjávardýr nútímans að rúmmáli, agnarsmá krabbadýr, eru innan við tíu sinnum minni en þau minnstu á kambríumtímabilinu. Á hinum enda skalans er steypireyðurin meira en 100.000 sinnum stærri en stærsta dýr kambríumtímabilsins. Það var svonefndur bribroti sem tilheyrði flokki liðdýra.

Vísindamennirnir komust að því að líklegasta skýringin á því að sjávardýr fari stækkandi sé sú að stærðin hafi þróunarlega kosti í för með sér. Þeir eru hins vegar ekki vissir í sinni sök um hverjir þeir eru nákvæmlega. Mögulegar skýringar eru þó þær að stærri dýr hafi getað synt hraðar, grafið sig betur niður í sjávarbotninn og étið stærri bráð.

Þá er talið mögulegt að aukið magn súrefnis í hafinu hafi gert dýrategundum kleift að verða stærri.

Frétt BBC af rannsókninni 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert