Vatnsbóla batt enda á gönguna

Skjáskot úr myndbandsupptöku NASA sem sýnir geimfarana að störfum áður …
Skjáskot úr myndbandsupptöku NASA sem sýnir geimfarana að störfum áður en vatnsbólan fannst. AFP

Sú uppgötvun að vatn væri að finna í hjálmi bandarísks geimfara batt snemmbúin enda á fyrstu geimgöngu bresks kollega hans, Tim Peake. Um var að ræða litla vatnsbólu, en tilvist hennar varð til þess að stjórnstöð ákvað að ljúka göngunni tveimur tímum fyrir áætlun.

Uppákoman vekur minningar um hættulegt ástand sem skapaðist þegar hjálmur ítalska geimfarans Luca Parmitano hóf að fyllast af vatni árið 2013 og hætta var á að hann drukknaði.

„Þetta er hvergi nærri jafn alvarlegt og það atvik,“ sagði Rob Navias, sem fjallaði um geimgönguna á sjónvarpsrás NASA. „Áhöfnin var aldrei í hættu.“

Hinn bandaríski Tim Kopra, 52 ára, hafði tilkynnt óvenjulega hátt gildi koltvísýrings í geimbúningi sínum fyrr í geimgöngunni en fann ekki til neinna einkenna og því taldi stjórnstöð að um væri að ræða bilaðan nema.

Vatnsbólan fannst hins vegar þegar fjórir tímar voru liðnir af hinni sex tíma löngu göngu. Peake kannaði útlit kollega sín fyrir utan alþjóðlegu geimstöðina og sagðist sjá „vatnsfilmu“. Að sögn Kopra virtist vatnið kalt, sem þykir benda til þess að það hafi lekið úr kælikerfi innan á geimbúningnum.

Geimfararnir höfðu þegar lokið verkefni sínu þegar vatnið fannst; að skipta um bilaðan tæknibúnað.

Um var að ræða fyrstu geimgöngu breska geimfarans Tim Peake.
Um var að ræða fyrstu geimgöngu breska geimfarans Tim Peake. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert