Júpíter með 12 ný tungl

Ný mynd af suðurhluta Júpíter var birt í byrjun mánaðarins. …
Ný mynd af suðurhluta Júpíter var birt í byrjun mánaðarins. Nú hafa vísindamenn fundið ný tungl við plánetuna. AFP

Tólf ný tungl hafa uppgötvast við Júpíter, þar af ellefu eðlileg tungl og eitt sem sagt er óvenjulegt vegna þess að það ferðast í öfuga átt. Staðfestur heildarfjöldi tungla sem ferðast kringum Júpíter eru þar með orðinn 79 talsins, sem er mesti fjöldi tungla nokkurrar plánetu sólkerfisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Carnegie vísindastofnunarinnar sem birt var í vikunni.

„Það sem er skemmtilegt við hana [uppgötvunina] er að fjöldi þekktra tungla eykst þannig að Júpíter hefur nú 79 tungl á móti 63 hjá Satúrnus,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri stjörnufræðivefsins, í samtali við blaðamann mbl.is.

Fyrir slysni

Samkvæmt Sævari mun uppgötvunin hjálpa til með auka þekkingu og skilning á sögu sólkerfisins og Júpíters. „Júpíter hefur auðvitað afgerandi áhrif á þróun sólkerfisins af því að plánetan er svo stór,“ segir hann.

Teymi Scott Sheppard við Carnegie háskólann tók fyrst eftir tunglunum vorið 2017 þegar þeir voru að leita að risastórri plánetu handan Plútó. Sú pláneta er talin vera mun lengra frá sólinni en Plútó og telja vísindamenn hana útskýra ferðir eininga í ytri hluta sólkerfisins.

„Svo er skemmtilegt að þetta sé slysauppgötvun, menn voru að leita að reikistjörnu 9 sem gæti hugsanlega leynst þarna einhversstaðar í útjaðri sólkerfisins. Það vildi bara svo til að Júpíter var þarna á sama tíma þegar leitin fór fram,“ segir Sævar.

Júpíter ryksuga sólkerfisins

Öll tunglin eru heldur smá og snúast 11 þeirra í kringum Júpíter í gagnstæða átt miðað við snúning Júpíters, á meðan eitt snýst með snúningi plánetunnar og er talið að árekstur geti orðið í framtíðinni vegna þessa. Tvö þessara tungla eru á braut sem er nær plánetunni en hin og eru talin vera leifar af stærra tungli sem hefur sundrast.

„Það að þessi tungl séu svona lítil bendir til þess að þau hafi ekki orðið til á sama tíma og Júpíter, heldur orðið til við árekstra í Júpíterskerfinu eða að einhver tungl hafi orðið föst á braut um plánetuna,“ að sögn Sævars.

Hann segir Júpíter hafa verið eins og ryksugu í sólkerfinu, „en plánetan getur líka slöngvað einhverjum hlutum inn á við. Þannig að hann er bæði bölvun og blessun. Við höfum hugsanlega einhvern tímann orðið fyrir barðinu á einhverjum hlut sem fór nógu nálægt Júpíter og breytt stefnu og tekið stefnu á okkur í stað þess að fara framhjá okkur.“

Mynd/Carnegie Institution for Science/Roberto Molar Candanosa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert