Best að vakna 4:30

AFP

Sævar Helgi Bragason segir að þótt veðurspáin sé slæm fyrir stærstan hluta landsins gætu einhverjir haft áhuga á að taka daginn snemma og virða fyrir sér fyrsta og eina almyrkvann á tungli á þessu ári. Heppilegast sé að vakna í kringum 4:30 í nótt, rétt áður en almyrkvinn skellur á. Seinast sást almyrkvi á tungli frá Íslandi árið 2015 en næst árið 2022.

Tunglið fær á sig rauðleitan blæ sem rekja má til ljóss sem berst frá öllum sólsetrum og sólarupprásum á jörðinni á þeim tíma. Almyrkvann nú ber upp á næsta nálægasta fulla tungl ársins.

Tunglmyrkvar verða þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Þeir verða því aðeins þegar tunglið er fullt og gengur inn í skugga jarðar, að því er fram kemur í grein eftir Sævar Helga Bragason á stjörnufræðivefnum.

Blóðmáni í rúma klukkustund

Tunglmyrkvinn hefst klukkan 2:37 að íslenskum tíma í nótt og deildarmyrkvi verður kl. 3:34 þegar tunglið snertir alskugga jarðar. Almyrkvinn hefst klukkan 4:41, þegar tunglið verður allt í alskugga jarðar, og hann stendur í eina klukkustund og tvær mínútur, eða til klukkan 5:43. Deildarmyrkvanum lýkur síðan klukkan 6:51.

Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig blóðrauðan blæ og litinn má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki, að sögn Sævars Helga. „Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit.“

Almyrkvi á tungli er því oft kallaður blóðmáni. „Rauða ljósið er nógu mikið til að lýsa tunglið upp, þannig að við sjáum það,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Walter Freeman, aðstoðarprófessor við Syracuse-háskóla í Bandaríkjunum. „Í stað þess að vera bjart og hvítt verður tunglið mjög dökkt og rautt, um 10.000 sinnum dimmara en venjulega.“

Ekki þarf nein hjálpartæki til að sjá tunglmyrkva og hægt er að skoða hann með berum augum, ólíkt sólmyrkva. „Tunglið er aldrei svo bjart að það skaði augun eins og sólin,“ segir Freeman.

mbl.is
Gefins - áttu klink sem þú mátt missa?
Kattholt þiggur með þökkum smámynt (hvaðan sem er). Þetta fer til að fjármagna...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Allar stærðir sendibíla. Traust og góð þjónusta við fyrirtæki og einstaklinga. ...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari - Eignaskiptayfirlýsingar
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari - Eignaskiptayfirlýsingar - Leigusamningar T...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...