Tvöfalt hraðari hlýnun á norðurslóðum

Frá Grænlandsjökli.
Frá Grænlandsjökli. mbl.is/RAX

Meira en tvöfalt hraðari hlýnun hefur átt sér stað á norðurskautssvæðinu á síðustu tveimur áratugum en að meðaltali á jörðinni, en þessa auknu hlýnun má að hluta til rekja til samdráttar hafíss og snjóþekju á sama tíma. Hækkun sjávarborðs við Ísland út öldina, einkum vegna bráðnunar jökla, gæti numið mest einum metra.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu IPCC, milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar. Enn fremur segir í skýrslunni að jöklar muni áfram hörfa víðast hvar á komandi árum og snjóhula að vetri endast skemur. Breytingar verði sömuleiðis á matvælaöryggi og búsetu á norðurskautssvæðinu. Meðal annars með tilliti til náttúruvár, til að mynda flóða í ám, snjóflóða, skriðufalla og vandamála vegna óstöðugra jarðlaga, sem geti haft áhrif á innviði, ferðamennsku og aðstæður til útivistar.

Munar mest um bráðnun Grænlandsjökuls

Sjávarstaða muni halda áfram að hækka vegna leysingarvatns frá jöklum en þar munar mest um bráðnun Grænlandsjökuls. Bent er á að á árunum 2006-2015 hafi jökullinn rýrnað að meðaltali um 280 gígatonn á ári sem samsvari um 0,8 mm hækkun sjávarborðs heimshafanna árlega. Sjávarborð heimshafanna hafi hækkað að jafnaði um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005–2015 sem sé 2,5 sinnum meira en á árabilinu 1901–1990.

Þá verði aftakaflóð, sem nú hendi sjaldan, algengari innan næstu þrjátíu ára og komi ekki til verulegrar aðlögunar umfram það sem nú sé gert muni hækkun sjávar og tíðari aftakaflóð auka verulega áhættu vegna sjávarflóða á lágsvæðum. Snjóflóðum muni sennilega fækka og þau muni ekki ná eins langt frá fjallshlíð og áður en á móti muni krapaflóðum og votum snjóflóðum fara fjölgandi. Jafnvel að vetri til.

Gæti þýtt marga metra hærri sjávarstöðu

Flóð í ám sem orsakast af asarigningu á snjó verði fyrr á vorin og síðar um haust en áður sem og tíðari hærra til fjalla en fátíðari neðar í fjöllunum. Breytingar á snjó, ís og jöklum muni hafa áhrif á vistkerfi á landi og í fersku vatni á heimskauta- og háfjallasvæðum. Enn fremur muni búsvæði tegunda hnikast til norðurs og yfir á hærri svæði til fjalla sem muni hafa áhrif á uppbyggingu vistkerfa og framleiðni lífríkisins.

Reiknað er með að breytingarnar dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika og að tegundir deyi út á líffræðilega einstökum svæðum. Enn fremur að sjávarstöðubreytingar muni halda áfram á næstu öldum og gætu þegar fram í sækir orðið nokkrir sentimetrar á ári og skilað margra metra hækkun sjávarstöðu til langframa. Að teknu tilliti til óvissu gæti hækkun hér við land út öldina nálgast einn metra þar sem hún verður mest.

Þegar leitt til minni afla á mörgum svæðum

Þegar gæti áhrifa veðurfarsbreytinga á vistkerfi norðurslóða í fiskafla. Samdráttur í stofnstærð fiski- og skelfiskstofna vegna óbeinna áhrifa hnattrænnar hlýnunar hafi þegar leitt til minnkaðs afla á mörgum svæðum. Sumir stofnar hafi einnig stækkað vegna stækkunar hentugra búsvæða. Sögulegar rannsóknir og líkangerð bendi til þess að hlýnun sjávar á 20. öld hafi stuðlað að almennri minnkun á mögulegum heildarafla.

Sömuleiðis kemur fram að súrnun sjávar sé nú þegar meiri en vænta megi vegna náttúrulegs breytileika. Þá segir að einungis metnaðarfullar og samhæfðar aðgerðir dugi til þess að bregðast við þessari þróun en þar skipti menntun og skilningur á loflagsbreytingum miklu. Þær aðgerðir þurfi ekki hvað síst að tryggja sjálfbæra þróun samfélaga og gera þau í stakk búin að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina