Apple kynnir kynsegin lyndistákn

Fleiri lyndistáknum hefur verið bætt við, svo sem matardiski með …
Fleiri lyndistáknum hefur verið bætt við, svo sem matardiski með falafel, skúnki og banjói. Ljósmynd/Apple/Emojipedia

Tæknirisinnn Apple hefur sett fram nýjar útfærslur af flestum manneskjutáknum sínum, útfærslur sem allar eru ekki kyngreinanlegar, hvorki karlkyns né kvenkyns, og má jafnvel segja að þeir séu kynsegin (e. non-binary). Er þetta hluti af kerfisuppfærslu Apple-síma. 

Á undanfornum árum hefur Apple boðið upp á sífellt fleiri lyndistákn (e. emoji) sem taka fólk af öllum toga með í reikninginn. 

Fólk í hjólastól, blindrahundur og sveigjanleg gervihönd eru á meðal nýjustu lyndistákna Apple. Fást þessi lyndistákn með nýjustu uppfærslu iOS stýrikerfisins, uppfærslu 13.2. 

Hin nýju kynlausu lyndistákn eru aðeins öðruvísi en karlkyns og kvenkyns lyndistákn. Einhver þeirra hafa verið hönnuð á annan hátt, eru klædd í annars konar föt eða með öðruvísi klippingu en kvenkyns- og karlkyns lyndistáknin. 

„Gömlu broskarlarnir voru hlutlausir“

Það eru ekki allir hrifnir af þessari viðbót Apple og segja sumir að táknin gefi til kynna hvernig kynsegin fólk eigi að líta út. 

„Hvernig ákvarðið þið að það sé á þennan hátt sem eigi að tákna kynsegin einstaklinga eða að þessi lyndistákn standi fyrir flesta kynsegin einstaklinga?“ tísti einn Twitter notandi. 

„Ég skil ekki af hverju þeir voru ekki allir hlutlausir til að byrja með,“ skrifaði annar.

„Venjulegu gömlu broskarlarnir voru hlutlausir. Ég skil ekki hvers vegna við þurftum að kynja allt til að byrja með,“ sagði sá þriðji. 

Þegar Apple sagði frá áætlunum sínum fyrr á þessu ári þá sagði Apple að fyrritækið myndi færa fram enn meiri fjölbreytni á lyklaborð notenda og fylla í verulegt skarð í vali á lyndistáknum. 

Fyrirtæki hafa í auknum mæli lagt áherslu á að taka sem flestar gerðir mannfólks með í reikninginn. Leikfangaframleiðandinn Mattel skapaði til dæmis kynlausar dúkkur og kom þeim á markað í síðasta mánuði. Mörg tísku- og förðunarmerki hafa á síðari árum farið að markaðssetja vörur sem eru ekki háðar kyni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert