Vörulistar fyrir karla í kynlífsleit

Tyne-Lexy Clarson er þekkt stjarna á Instagram.
Tyne-Lexy Clarson er þekkt stjarna á Instagram. Skjáskot af Instagram

Þekktir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum fá á hverjum degi tilboð frá ókunnugum sem bjóða þeim fé gegn kynlífi, að því er fram kemur í frétt á BBC. Boðið hljóðar oft upp á háar fjárhæðir. Viðmælandi segir að samfélagsmiðlar séu orðnir að vörulistum fyrir karla sem leita næstu landvinninga í kynlífi. 

„Þetta er vændi í dýrari kantinum — það er ógnvekjandi að hugsa til þess að ef þeir senda mér skilaboð þá hafa þeir væntanlega sent þúsundum sætra stelpna á Instagram,“ segir Tyne-Lexy Clarson í þættinum Victoria Derbyshire.

Að hennar sögn var hún aðeins 19 ára þegar fyrsta tilboðið barst. Það hljóðaði upp á 20 þúsund pund ef hún væri til í að borða og drekka með viðkomandi. Eftir að hafa komið fram í Love Island hækkaði boðið í 50 þúsund en þá fylgdu með fimm nætur í Dubai. 

Tyne-Lexy segist hafa hafnað boðinu en hún óttist að þeir áhrifavaldar sem ekki fái munaðarvöru gefins líkt og hún geti fallið fyrir boðum sem þessum. 

Þetta eru miklir peningar fyrir suma og geta breytt öllu fyrir viðkomandi segir hún.

Rosie Williams, sem kom fram í þriðju þáttaröð Love Island, segir að hún hafi fengið boð upp á 100 þúsund pund á ári, allan þann fatnað sem hún vildi og töskur ef hún væri reiðubúin til að gerast fylgdarstúlka manns í Dubai. Hún segir að þetta sé ekki það sem hún hafi átt von á samfara frægðinni. „Þú ert vöruð við nettröllum. Þú ert vöruð við því að líf þitt muni umturnast en þú ert aldrei vöruð við því að eiga von á því að vera keypt af mönnum.“

Hér er hægt að lesa nánar um málið

mbl.is