Tinder kynnir neyðarhnapp

Stefnumótaforritið Tinder hefur tilkynnt að notendur þess í Bandaríkjunum fái brátt aðgang að neyðarhnappi í forritinu, sem mun gera þeim kleift að gera yfirvöldum viðvart telji þeir sig vera í hættulegum aðstæðum.

Um er að ræða nýjasta skref stefnumótaforritsins vinsæla til þess að auka öryggi notenda sinna. Með því að ýta á neyðarhnappinn eru notendur tengdir öryggisforritinu Noonlight sem kemur þeim í samband við neyðarlínu.

Brittany LeComte, einn stofnenda Noonlight, segir hnappinn munu þjóna hlutverki eins konar lífvarðar í aðstæðum þar sem notendur væru einir eða að fara að hitta einhvern í fyrsta sinn.

Aðrar öryggisráðstafanir sem Tinder er með í bígerð eru svo t.d. sannprófun myndefnis notenda, sem mun felast í því að gervigreind metur ljósmyndir sem notendur hlaða inn í forritið og ber saman við ljósmynd sem tekin er af notandanum í rauntíma. Þeir notendur sem standast prófið fá svo eins konar skjöld sem verður staðfesting annarra notenda fyrir því að þeir hafi staðist sannprófunina og myndirnar séu af þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert