Blóðprufur gætu spáð fyrir um alzheimer

Karlmaður á gangi með staf.
Karlmaður á gangi með staf. AFP

Vísindamenn segjast hafa þróað leið til að spá fyrir um það hvort sjúklingar þrói með sér alzheimer-sjúkdóminn með því að rannsaka í þeim blóðið.

Sérfræðingar fagna þessum tíðindum og segja að þau gætu skipt sköpum í baráttunni við sjúkdóminn.

Um fimmtíu milljónir manna um allan heim eru með alzheimer, sem er heilahrörnunarsjúkdómur. Rúmlega helming tilfella heilabilunar í heiminum má rekja til sjúkdómsins.

Talið er að alzheimer myndist þegar prótein sem hafa safnast saman í heilanum leiða til dauða taugafrumna. Sum þessara próteina finnast í blóði sjúklinga og hægt er að nota blóðprufur sem byggja á samþjöppun þeirra til að greina sjúkdóminn.

Vísindamenn í Svíþjóð og Bretlandi telja núna að hægt sé að nota þessar blóðprufur til að spá fyrir um alzheimer mörgum árum áður en einkenni koma fram.

Vísindamenn lýsa rannsókn sem var gerð á 550 sjúklingum nánar í tímaritinu Nature Aging.

Richard Oakley, yfirmaður rannsókna hjá „Alzheimer's Society“, segir að helsta vandamálið í baráttunni við sjúkdóminn sé að greina hann nógu snemma til að hægt sé að takast á við hann með tilraunameðferðum. „Ef þessi lífmerki í blóðinu geta spáð fyrir um alzheimer hjá stórum og dreifðari hópum gætum við horft fram á byltingu varðandi það hvernig við prófum ný tilraunalyf við heilabilun,“ sagði hann.

mbl.is