Telur að parkinsonfaraldur sé á næsta leiti

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Dr. Ray Dorsey, taugalæknir við háskólann í Rochester, telur að parkinsonfaraldur sé á næsta leiti. Parkinson er sá taugasjúkdómur sem hefur vaxið hvað hraðast á heimsvísu á síðustu árum. Í Bandaríkjunum hefur fólki með parkinson fjölgað um 35% á síðustu 10 árum. „Við hugsum að á næstu 25 árum muni tölurnar tvöfaldast,“ segir Dorsey. 

Spurður um framtíð parkinsonsjúkdómsins í Bandaríkjunum segir Dorsey: „Við erum á toppi gríðarlega stórs ísjaka.“

Flest tilfelli parkinsons skortir skýra orsök. Í auknum mæli telja þó vísindamenn að einn þáttur sé tríklóretýleni (TCE) í umhverfinu, efnasamband sem notað er í fituhreinsun í iðnaði, fatahreinsun og í heimilisvörur eins og skóáburð og teppahreinsiefni.

Helstu vísbendingar um hættu TCE á heilsu manna hafa komið frá fólki sem hefur unnið í námunda við efnið á vinnustað.

Ritrýnd rannsókn frá 2008 sem birtist í tímaritinu Annals of Neurology sagði TCE vera „áhættuþátt“ fyrir parkinson. Dr. Samuel Goldman frá Parkinson-stofnuninni í Sunnyvale, Kaliforníu, sem leiddi rannsóknina, skrifaði: „Rannsókn okkar staðfestir að algeng mengunarefni í umhverfinu geta aukið hættuna á að fá parkinson.“

Krabbameinsvaldandi efni

TCE er krabbameinsvaldandi efni sem meðal annars veldur nýrnafrumukrabbameini, krabbameini í leghálsi, lifur, eitlum og í brjóstvef karla. Oft er hægt að líta framhjá þekktu sambandi þess við parkinson vegna þess að útsetning fyrir TCE getur átt sér stað áratugum áður en sjúkdómurinn kemur fram.

Þó svo sum lönd stjórni mjög notkun TCE (notkun þess er til að mynda bönnuð í aðildarríkjum ESB) áætlar EPA að mikið magn af efninu sé enn notað árlega í Bandaríkjunum og að árið 2017 hafi meira en 900 kg af því verið losuð í umhverfið frá iðnaðarsvæðum og þannig mengað loft, jarðveg og vatn. 

Frétt af The Guardian.

mbl.is