Ísland hækkar um 29 sæti

Ísland er í 58. sæti á lista 167 landa í …
Ísland er í 58. sæti á lista 167 landa í úttekt Alþjóðafjarskiptasambandsins á netöryggi.

Einkunn Íslands fyrir netöryggi í nýútgefnum netöryggisvísi Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) árið 2020 er 79,81 prósent af mögulegum stigum. Hún hækkar töluvert frá síðustu úttekt árið 2018 en þá fékk Ísland 44,9 prósent mögulegra stiga.

Ísland er nú í 58. sæti á lista 167 þjóða en var í 87. sæti á sama lista árið 2018. Þá erum við í 31. sæti meðal Evrópuþjóða en vorum síðast í 42. sæti.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að flest önnur lönd hafi lagt áherslu á netöryggi og bætt sig mikið í þeim efnum frá síðustu mælingu. Því hefði kyrrstaða í netöryggismálum hér á landi þýtt að við Ísland hefði dregist aftur úr öðrum ríkjum.

Þar kemur einnig fram að stjórnvöld hafi farið í markvissar aðgerðir til að styrkja lagaumgjörð, efla eftirlit með netöryggismálum og bæta umgjörð þeirra og skipulag. Ný heildarlög um öryggi net- og upplýsingakerfa tóku gildi árið 2020 og eru þau fyrstu sinnar tegundar en með þeim var hlutverk Netöryggisráðs eflt.

Hæst í lagalegu umhverfi og lægst í hæfni

Í umsögn um Ísland segir að góður árangur hafi náðst hvað varðar lagalegt umhverfi og skipulag og úrbóta sé helst þörf varðandi hæfni. Úttektin gefur einkunn í fimm flokkum en hér má sjá einkunnir Íslands:

  • Lagalegt umhverfi (e. Legal Measures) 89%
  • Tækni (e. Technical Measures 81%
  • Skipulag (e. Organizational Measures) 88%
  • Hæfni (e. Capacity Development) 60%
  • Samvinna (e. Cooperative Measures) 81%

Undir lagalegt umhverfi fellur löggjöf og reglugerðir tengdar netöryggi í víðum skilningi, en undir hæfni fellur meðal annars vitundarvakning, námskeið og vottun fyrir þá sem vinna við netöryggi, netöryggismenntun, rannsóknir, þróun og netöryggisiðnaður.

Í síðasta sæti meðal Norðurlanda

Öll önnur Norðurlönd hafa nú náð yfir 90 prósent mögulegra stiga í úttekt Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Norðmenn fengu einkunnina 96,89 prósent, Finnar 95,78 prósent, Svíar 94,59 prósent og Danir 92,6 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert