Bændur fá að gera við eigin dráttarvélar

Aukin tæknivæðing undanfarna áratugi hefur valdið því að fjöldi framleiðenda …
Aukin tæknivæðing undanfarna áratugi hefur valdið því að fjöldi framleiðenda hefur reynt að takmarka möguleika eigenda tækja til að gera sjálfir við þau. AFP/Patrick T. Fallon

Vatnaskil urðu um helgina í baráttu bandarískra bænda við tilraunir framleiðenda til að stjórna því hverjir hefðu heimild til að gera við dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki sem bændur hafa sjálfir keypt og eru eigendur að. Er málið hluti af stærri baráttu víða um heim þar sem neytendur og eigendur tækja telja að þeir megi sjálfir gera við tækin.

Þróunin undanfarin ár hefur þó víða verið sú að stórir framleiðendur eins og Deere & Co, framleiðandi John Deere dráttarvéla og annarra landbúnaðartækja, hafa bannað og gert allt til að takmarka möguleika eigendanna til þess. Þessi staða hefur meðal annars þróast eftir að stærri og stærri hluti tækja verður rafeindastýrður sem þýðir að erfiðara getur verið að greina og laga bilun nema með tækjum og tólum sem framleiðandinn sjálfur framleiðir.

Um helgina skrifuðu bandaríska landbúnaðarstofnunin (AFBF) og Deere & Co undir sameiginlega yfirlýsingu varðandi aðgang að verkfærum og upplýsingum á sama tíma og höfundarréttur John Deere er virtur og gætt er að öryggismálum. 

Samkvæmt samkomulaginu verður eigendum tækja og sjálfstæðum viðgerðarmönnum ekki heimilt að breyta öryggisatriðum og útblástursstýringu eða hafa áhrif á aflstýringu landbúnaðartækja né uppljóstra um „viðskipta leyndarmál.“ Hins vegar mun Deere fyrirtækið í samstarfi við AFBF og viðskiptavini fyrirtækisins koma á framfæri upplýsingum um verkfæri og úrræði til greiningar þannig að bændur geti sjálfir gert við eigin tæki. Greint er frá þessu á vef BBC.

John Deere er einn stærsti framleiðandi landbúnaðartækja í heiminum.
John Deere er einn stærsti framleiðandi landbúnaðartækja í heiminum. AFP/David Becker

Í Bretlandi og Evrópusambandinu hefur verið opinber stefna sem kveður á um að framleiðendur þurfi að útvega varahluti þannig að neytendur og þriðju aðilar geti gert við tæki án þess að það þurfi að senda þau til framleiðandans sjálfs eða sérstakra verkstæða. Kom þannig fram í skýrslu Evrópuþingsins að neytendur hefðu lengi kvartað undan því að tæki virtust bila eða brotna fyrr en áður og að viðgerðir væru of kostnaðarsamar m.a. vegna skorts á varahlutum og aðgengi að þjónustu. Stundum væru viðgerðir jafnvel með öllu ómögulegar.

Á síðasta ári brást m.a. Apple við þessari gagnrýni og kom upp áætlun fyrir viðskiptavini til að geta sjálfir gert við Apple-tæki sín. Er meðal annars horft til þess að þeir geti skipt um rafhlöður, skjái og myndavélar í nýlegri iPhones.

Sum ríki í Bandaríkjunum eins og New York og Massachusetts hafa þegar samþykkt svipuð lög og yfirlýsingin núna miðar að. Þá skrifaði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, undir forsetaskipun þar sem kallað var eftir því að alríkisviðskiptaráðið myndi teikna upp stefnu fyrir landið í heild þar sem neytendum væri gert kleift að gera við eigin tæki, sérstaklega þegar kom að landbúnaðartækjum og raftækjum.

mbl.is